Svíar ræða við ný vitni í máli Assange

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks. Hann var sakaður um nauðgun í …
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks. Hann var sakaður um nauðgun í Stokkhólmi árið 2010. Hann hefur alla tíða hafnað ásökuninni. AFP

Ríkissaksóknari í Svíþjóð hefur nú rætt við tvö ný vitni vegna áskana gegn Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, um nauðgun sem hann á að hafa gerst sekur um í Stokkhólmi árið 2010.

AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir saksóknaraembættinu, sem sagði að rætt hefði verið við sjö vitni í sumar.

„Við höfum aðallega verið að ræða aftur við þá einstaklinga sem talað var við 2010, en þó var líka rætt við tvo sem ekki hafði áður verið rætt við,“ sagði Eva-Marie Person vararíkissaksóknari.

Sænsk kona ásakaði Assange um nauðgun eftir að þau hittust á WikiLeaks-ráðstefnu í Stokkhólmi í ágúst 2010. Assange hefur alla tíð hafnað ásökununum.

Nauðgunarbrot fyrnast á tíu árum samkvæmt sænskum lögum og mun málið því fyrnast í ágúst á næsta ári hafi ekki verið dæmt í því áður.

„Þegar við höfum farið í gegnum viðtölin mun ég ákveða hvað verður gert í málinu. Vera kann að rannsókninni verði hætt, eða þá að ég ákveði að rannsaka málið frekar,“ sagði Person.

Verði málið skoðað frekar segist Person munu fara fram á það við bresk yfirvöld að fá að yfirheyra Assange, sem setið hefur í öryggisfangelsi í Bretlandi frá því í apríl vegna brota á skilorði. Áður hafði hann hafst við í sendiráði Ekvadors í Lundúnum frá því 2012 til að forðast framsalsbeiðni sænskra yfirvalda.

Eftir að Assange var handtekinn tilkynntu sænsk yfirvöld að nauðgunarkæran yrði tekin upp að nýju, en málið hafði verið lagt niður 2017 með þeim rökum að ómögulegt væri að halda áfram með það án þess að yfirheyra Assange.

Bretar höfnuðu hins vegar beiðni Svía um að fá Assange framseldan vegna rannsóknar þeirra á þeim grundvelli að hann sæti þegar inni.

Bandarísk yfirvöld hafa líka farið fram á að fá hann framseldan, en þar á hann 18 ákærur yfir höfði sér vegna birtingar á trúnaðarupplýsingum og gæti átt yfir höfði sér allt að 175 ára dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert