Hótaði að reka starfsmenn NOAA

Donald Trump Bandaríkjaforseti með veðurkortið þar sem lykkja hefur verið …
Donald Trump Bandaríkjaforseti með veðurkortið þar sem lykkja hefur verið gerð á Alabama. AFP

Wilbur Ross viðskiptaráðherra Bandaríkjanna er sagður hafa hótað að reka hátt setta starfsmenn bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) myndu þeir ekki styðja þær fullyrðingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að fellibylurinn Dorian kynni að leggja leið sína til Alabama.

New York Times greinir frá þessu og segir þetta ástæðu þess að veðurstofan sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem hún hafnaði fyrri fullyrðingu veðurdeildar stofnunarinnar í Alabama að íbúum ríkisins stafaði engin hætta af Dorian.

BBC segir viðskiptaráðuneytið hafa hafnað fréttinni og segir hana „falska“.

Dorian, sem varð 45 manns hið minnsta að bana á Bahamaeyjum, kom hvergi nærri Albama þegar hann fór yfir.

Það vakti athygli þegar Trump fræddi bandarískan almenning í síðustu viku um yfirferð Dorian sem þá nálgaðist Bandaríkin. Sýndi Trump þá veðurkort frá NOAA með leið fellibylsins. Kortið leit nær eins út og kort sem fjölmiðlar höfðu birt, en á því var þó einn smávægilegur munur. Svört lykkja var líka merkt við Alabama sem ekki hafði verið á upphaflega kortinu.

Hogan Gidley, talsmaður Hvíta hússins, staðfesti síðar að kortinu hefði verið breytt með svörtum tússpenna, en sagði ekki hver hefði breytt því. Áður en að því kom hafði Trump birt færslu á Twitter þar sem hann sagði að nokkur ríki, m.a. Alabama, „fengju líklega mun harðari skell en áður var við búist“.

Skrifstofa veðurstofunnar í Birmingham í Alabama brást við nokkrum mínútum eftir tístið frá Trump og sagði Alabamabúa ekki hafa orðið vara við áhrif Dorian.

New York Times hefur eftir þremur heimildamönnum að Ross hafi hótað að reka hátt setta starfsmenn NOAA nema þeir styddu fullyrðingu Trumps. Leiddi það til óvenjulegrar yfirlýsingar frá NOAA síðar um daginn þar sem sagt var að Dorian „kynni að hafa áhrif á Alabama“.

Sagði þar að yfirlýsing veðurstofunnar í Birmingham hefði verið „ósamrýmanleg við þær líkur sem byggðust á bestu spám sem fáanlegar voru á þeim tíma“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert