Kynjahlutfall aldrei jafnara í framkvæmdastjórn ESB

Ursula von der Leyen tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins …
Ursula von der Leyen tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 1. nóvember. AFP

Ursula von der Leyen, sem tekur von bráðar við embætti for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, hefur í samráði við aðildarríki ESB útnefnt 27 framkvæmdastjóra sem taka sæti í framkvæmdastjórninni, einni helstu stofnun ESB. 

13 konur og 14 karlar eru á listanum og bíða þeirra ærin verkefni, svo sem að takast á við útgöngu Breta úr sambandinu og baráttuna gegn loftslagsvá. Bretar eiga ekki sinn fulltrúa í framkvæmdastjórninni, en fyrirhuguð útganga þeirra úr sambandinu er 31. október. 

Ef Evrópuþingið samþykkir nýskipaða framkvæmdastjórn verður hún með jafnasta kynjahlutfall í sögu sambandsins. Der Leyen hefur gegnt embætti varn­ar­málaráðherra Þýska­lands frá ár­inu 2013 en læt­ur nú af störf­um til að taka við fram­kvæmd­ar­vald­inu í Evr­ópu­sam­band­inu úr hönd­um Lúx­em­borg­ar­ans Jean-Clau­des Junckers, en kjör­tíma­bil hans renn­ur út 1. októ­ber. Der Leyen tekur formlega við 1. nóvember. 

Tilnefning der Leyen kom á óvart en hún var samt sem áður áberandi í umræðunni og hét hún því að kon­ur og karl­ar myndu skipa æðstu embætti til jafns í valdatíð henn­ar en Evr­ópu­sam­band­inu hef­ur gjarn­an verið legið á hálsi fyr­ir það hve fáar kon­ur halda þar um valdataum­ana. Til marks um það má nefna að der Leyen verður fyrsta kon­an til að gegna öðru tveggja valda­mestu embætta sam­bands­ins, en þau eru for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar og for­seti leiðtogaráðs.  

Der Leyen ber ábyrgð á því að úthluta embættum til framkvæmdastjóranna eftir málefnasviðum og getur fært þá til eða gert þá kröfu að þeir segi af sér. Forsetinn ákveður stefnu framkvæmdastjórnarinnar og hefur úrslitaatkvæði falli atkvæði jöfn þegar lagafrumvörp eru samþykkt á vikulegum fundum framkvæmdastjórnarinnar. Framkvæmdastjórarnir eru skipaðir til fimm ára. 

BBC hefur tekið saman lykilgerendur í nýju framkvæmdastjórninni, en þar má meðal annars finna Phil Hogan fyrrverandi ráðherra í írsku ríkisstjórninni og gríska þingmanninn Margaritis Schinas sem hefur átt sæti í framkvæmdastjórninni frá 2014, en de Leyen treystir á þá í Brexit-málum. 

Þá má búast við að Frans Timmermans, leiðtogi jafnaðarmanna á Evr­ópuþing­inu, sem margir bjuggust við að yrði næsti forseti framkvæmdastjórnarinnar, verði áberandi í loftslagsmálum. 

Margrethe Vestager, sem hefur farið með sam­keppn­is­mál í fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins, er tilnefnd sem varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, og mun hún að auki hafa umsjón með fagráðuneyti sem fjallar um stafræn mál. 

Margrethe Vestager, sem hefur farið með sam­keppn­is­mál í fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins, …
Margrethe Vestager, sem hefur farið með sam­keppn­is­mál í fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins, er tilnefnd sem varaforseti framkvæmdastjórnarinnar. AFP

Aðrir framkvæmdastjórar eru: 

Johannes Hahn, Austurríki

Didier Reynders, Belgíu

Mariya Gabriel, Búlgaríu

Dubravka Suica, Króatíu

Stella Kyriakides, Kýpur 

Vera Jourova, Tékklandi 

Kadri Simson, Eistlandi 

Jutta Urpilainen, Finnlandi

Sylvie Goulard, Frakklandi

Laszlo Trocsanyi, Ungverjalandi

Paolo Gentiloni, Ítalíu

Valdis Dombrovskis, Lettlandi

Virginijus Sinkevicius, Litháen 

Nicolas Schmit, Lúxemborg 

Helena Dalli, Möltu 

Janusz Wojciechowski, Póllandi

Elisa Ferreira, Portúgal 

Rovana Plumb, Rúmeníu

Maros Sefcovic, Slóvakíu

Janez Lenarcic, Slóveníu

Josep Borrell, Spáni

Ylva Johansson, Svíþjóð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert