17% íbúa Bahamaeyja heimilislaus

Hjálparsveitir að störfum í Marsh Harbour þar sem 1.100 heimili …
Hjálparsveitir að störfum í Marsh Harbour þar sem 1.100 heimili eyðlögðust. AFP

Patrick Joachin bíður í röð á lögreglustöð í Nassau, höfuðborg Bahamaeyja, og vonast til að fá pappíra sem sýni að hann sé með hreint sakavottorð og það muni að lokum hjálpa honum að flýja til Bandaríkjanna. „Ég á ekkert eftir hérna,“ segir hann við CNN-sjónvarpsstöðina. „Ekkert heimili, enga vinnu og enga fjölskyldu.“ Joachim var í hópi þeirra sem voru fluttir á brott frá Dundas town á Abaco sl. laugardag.

Um 17% íbúa Bahamaeyja eru nú heimilislaus eftir að fellibylurinn Dorian þurrkaði út heilu hverfin og reif hús í heilu lagi af undirstöðum sínum. Það þýðir að um 70.000 manns hafa misst aleiguna.

Joachin vill gjarnan komast flugleiðina til Tampa á Flórída þar sem móðir hans og systir búa. Þar langar hann að dvelja þar til það verður öruggt að snúa aftur til Abaco-eyja. Komist Joachim ekki til Bandaríkjanna hefur hann engan samastað.

Fólk hefst víða við í húsum sem ekki teljast örugg …
Fólk hefst víða við í húsum sem ekki teljast örugg eða íbúðarhæf. AFP

Svartamarkaðsbrask með brauð

Til þessa hefur tekist að koma um 5.000 manns á brott frá Abaco-eyjum. Margir aðrir eru enn strandaglópar þar við ótryggar aðstæður. Þannig hafast margir við í húsum sem enn standa uppi en teljast ekki endilega örugg.

„Það eru margir hér sem búa í húsum hér í Freebort og á Grand Abaco sem eru ekki íbúðarhæf,“ sagði fréttamaður CNN á vettvangi í gær.

Og það eru þeir sem teljast í hópi þeirra heppnu. Gervihnattamyndir af bænum Marsh Harbour á Abaco-eyjum sýna hvernig 1.100 hús eyðilögðust í fellibylnum.

Á Grand Bahama hafa íbúar lýst yfir áhyggjum af því að þeir séu að borða skemmdan mat þar sem margar verslanir misstu rafala sína. Rafmagn er heldur ekki komið á á ný og segir CNN svartamarkaðsviðskipti nú eiga sér stað með brauð og alla þá litlu hluti sem flestir taka sem sjálfsagðan hlut. 

Fjölmargar fjölskyldur bíða líka klukkustundum saman í biðröð eftir aðstoð, jafnvel með lítil börn með sér, og margir vilji því komast burt frá Bahama þar til aðstæður batna.

CNN segir stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta þó ólíklega til að veita íbúum Bahama stöðu flóttamanna tímabundið, samkvæmt svonefndri TPS-áætlun. Hefur CNN eftir embættismönnum að of tímafrekt væri að veita aðstoð og skrá alla þá sem rétt ættu á henni. 

Slík réttindi hafa þó verið veitt áður vegna fellibylja, m.a. á tíunda áratugnum þegar Níkaragva og Hondúras urðu illa úti þegar fellibylurinn Mitch fór þar yfir. Þá var Nepal skilgreint sem TPS-ríki árið 2015 eftir að 8.000 manns létust í öflugum jarðskjálfta.

Bílar um borð í skipi í Marsh Harbour eru til …
Bílar um borð í skipi í Marsh Harbour eru til vitnis um kraftana sem Dorian fylgdu á ferð fellibylsins yfir Abaco eyjar. AFP
mbl.is