Æðsti dómstóll Skota segir þingslit ólögleg

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Æðsti dómstóll Skotlands hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, um að slíta þing hafi verið ólögmæt.

Málið var tekið fyrir vegna stefnu stjórnmálamanna, þvert á flokka, sem eru ósáttir við framferði forsætisráðherrans. Í úrskurði dómsins segja dómarar að ákvörðun Johnsons um að senda þingið heim sé tekin í þeim „ósæmilega tilgangi að lama þingið“. Úrskurðaði dómurinn því að ákvörðun Johnson færi gegn lögum um þingræði og væri ógild.

Réttaráhrifum ákvörðunarinnar verður þó frestað, þ.e. þing verður ekki kallað saman að nýju, þar sem Hæstiréttur Bretlands hefur ákveðið að taka málið til meðferðar, og mun hún hefjast á þriðjudag. 

Í bréfi til þingmanna í lok ágúst tilkynnti Johnson þá ákvörðun sína að fara þess á leit við drottningu að hún sliti þingi og boðaði til nýs þings 14. október. Hafði þing þá staðið yfir í tæpa 300 daga, um tvöfalt lengur en hefð hefur verið fyrir undanfarinn áratug. Að fenginni blessun drottningar sleit forsætisráðherra þingi í fyrradag, en þingið kemur aftur saman 17 dögum áður en til stendur að Bretar gangi úr Evrópusambandinu og aðeins þremur dögum fyrir örlagafund leiðtogaráðs Evrópusambandsins, þar sem Boris Johnson mun freista þess að ná samkomulagi um tilhögun útgöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert