CIA-njósnarinn sem á óuppgerðar sakir við Trump

Fyrrverandi CIA njósnarinn Valerie Plame vill á þing fyrir Demókrataflokkinn.
Fyrrverandi CIA njósnarinn Valerie Plame vill á þing fyrir Demókrataflokkinn. Skjáskot/Twitter

„Herra forseti, ég á óuppgerðar sakir við þig,“ segir fyrrverandi CIA-njósnarinn Valerie Plame í kosningamyndbandi sem birt hefur verið á samfélagsmiðlum vegna framboðs hennar til Bandaríkjaþings. 

Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá og segir Plame, sem vill á þing fyrir Demókrataflokkinn, beina þar orðum sínum að Donald Trump Bandaríkjaforseta sem náðaði manninn sem gerði út um njósnaferil hennar.

Í myndbandinu ekur Plame bandarískum bensíndreka á miklum hraða áður en hún tekur 180 gráðu beygju í brekku. „Já, þeir kenna okkur að keyra svona hjá CIA,“ segir hún.

Það var árið 2003 sem Plame rataði fyrst í fréttirnar í kjölfar þess að Lewis „Scooter“ Libby, sem var ráðgjafi þáverandi varaforsetans Dicks Cheneys, lak nafni hennar í fjölmiðla. Plame er gift Joseph P. Wil­son, fyrr­ver­andi sendi­herra, sem hafði gagnrýnt Íraks­stríðið. Nafnbirtingin var álitin hefndaraðgerð gegn Wilson, en í kjölfar hennar neyddist Plame til að láta af störfum sem útsendari og var þess í stað sett bak við skrifborð hjá CIA. Hún hætti störfum fyrir leyniþjónustuna tveimur árum síðar.

Málið varð að miklu hneykslismáli í Bandaríkjunum. Blaðamaðurinn sem birti fréttina var dæmdur til fangelsisvistar fyrir að gefa ekki upp hver heimildarmaður sinn væri og Libby hlaut 30 mánaða dóm nokkrum árum síðar m.a. fyrir að bera ljúgvitni. George W. Bush þáverandi forseti kom í veg fyrir að hann yrði að sitja af sér dóminn. Hann náðaði hann þó ekki, en það gerði hins vegar Trump í apríl í fyrra. „Ég skil þetta sem svo að Scooter Libby hafi verið látinn sæta miklu óréttlæti,“ sagði Trump á sínum tíma.

Frá því að Plame hætti í leyniþjónustunni hefur hún skrifað þrjár bækur, alið upp barn og starfað sem ráðgjafi, m.a. vegna gerðar Hollywood-myndarinnar „Fair Game“ frá árinu 2010 sem byggist á hneykslismálinu.

Nú gefur hún kost á sér sem þingmaður fyrir Nýju-Mexíkó í þingkosningunum á næsta ári. „Við verðum að snúa Bandaríkjunum við,“ segir Plame í myndbandinu.

mbl.is