Fordæma innlimunaráform Netanyahus

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra bendir hér á kort sem sýnir Jórdandalinn.
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra bendir hér á kort sem sýnir Jórdandalinn. AFP

Arabaríki hafa fordæmt áætlanir Benjamins Netanyahus, forsætisráðherra Ísrael, um innlimun hluta Vesturbakkans. Netanyahu hét því í gær að nái hann endurkjöri í kosningum sem fram fara í Ísrael í næstu viku þá muni Ísraelar innlima Jórdandalinn og norðurhluta Dauðahafsins.

Var þessi yfirlýsing strax harðlega gagnrýnd af stjórnvöldum í Jórdaníu, Tyrklandi og Sádi-Arabíu. Fordæmdi bandalag arabaríkja jafnframt yfirlýsinguna og sagði hana „hættulega þróun“ og „ágengni“.

Sagði palestínski diplómatinn Saeb Erekat slíkar aðgerðir flokkast sem „stríðsglæpi“ sem myndu „koma í veg fyrir alla möguleika á friði“.

Ísraelar hernámu Vesturbakkann árið 1967 og hafa verið með viðveru þar síðan, en hafa til þessa ekki innlimað hann inn í Ísraelsríki.

Palestínumenn gera hins vegar tilkall til svæðisins alls fyrir sjálfstætt Palestínuríki.

BBC segir Netanyahu fram að þessu hafa haldið því fram að Ísraelar yrðu áfram með viðveru í Jórdaníudalnum til að tryggja öryggi.

Netanyahu sagði einnig á kosningafundi sínum að hann hefði uppi áform um að innlima allar gyðingabyggðir á Vesturbakkanum, af því geti hins vegar ekki orðið fyrr en langþráð drög Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að friði milli Ísraels og Palestínu verði kynnt. Innlimun Jórdandalsins og Dauðahafsins þurfi hins vegar engrar biðar við.

mbl.is