Hafa tvö ár til að finna sér starf

Andrea Leadsom, viðskiptaráðherra Bretlands, segir ákvörðunina sigur fyrir erlenda nema …
Andrea Leadsom, viðskiptaráðherra Bretlands, segir ákvörðunina sigur fyrir erlenda nema og fyrir efnahag Bretlands. AFP

Erlendir nemendur í Bretlandi munu fljótlega fá leyfi til þess að vera þar í tvö ár eftir að þeir ljúka námi, samkvæmt nýrri tillögu frá innanríkisráðuneytinu. 

Er tillögunni ætlað að gefa erlendum nemendum, sem lokið hafa námi hjá skráðri stofnun, rýmri tíma til að leita sér að starfi að námi loknu, en það var árið 2012 sem Theresa May, þáverandi innanríkisráðherra, tók ákvörðun um að erlendir nemendur mættu aðeins vera í landinu í fjóra mánuði að lokinni útskrift.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að breytingin muni valda því að erlendir nemendur geti leyst möguleika sína úr læðingi og hafið starfsframa sinn í Bretlandi.

Hátt í hálf milljón erlendra nema stundar nám í Bretlandi ár hvert, og mun breytingin eiga við alla þá sem hefja þar nám í grunnnámi eða á hærra námsstigi, samkvæmt frétt BBC.

mbl.is