Konur formenn flestra stjórnmálaflokka í Finnlandi

Katri Kulmuni er nýkjörinn formaður finnska Miðflokksins.
Katri Kulmuni er nýkjörinn formaður finnska Miðflokksins. Mynd: facebook/Katri Kulmuni.

Nýr kafli var ritaður í finnska stjórnmálasögu um helgina þegar Miðflokkurinn þar í landi kaus Katri Kulmuni sem formann. Þar með eru flestir leiðtogar stjórnmálaflokka í Finnlandi konur. Af átta stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á finnska þinginu eru konur í formennsku í fimm. Finnska ríkisútvarpið fjallar um þetta á vefsíðu sinni í dag.

Á þriðjudag var enn eitt glerþakið brotið í Finnlandi þegar Jutta Urpilainen varð fysta konan þar í landi til að vera tilnefnd í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hún hafði áður verið fyrsta konan í Finnlandi til að gegna stöðu fjármálaráðherra og leiða Jafnaðarmannaflokkinn.

Hægur framgangur

Framgangur finnskra kvenna í stjórnmálum hefur hingað til verið hægur. Árið 1907 varð Finnland eitt af fyrstu ríkjum heims til að leyfa þingsetu kvenna en þá var landið undir rússneska keisaranum. 19 konur voru þá kjörnar á þing. Áratug síðar öðlaðist Finnland sjálfstæði en það var ekki fyrr en á síðasta tug síðustu aldar sem konur fóru að rísa til áhrifa.

Haft er eftir Iikka Ruostetsaari, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Tampere, að frami kvenna í stjórnmálum hafi þó verið hraðari en í viðskiptalífinu þar í landi. Til að rétta þar við kynjahallann vanti fleiri konur í efri stjórnunarstig fyrirtækja.

Í núverandi ríkisstjórn Finnlands eru þrjár konur, sem jafnframt leiða flokka sína. Anna-Maja Henriksson, leiðtogi Sænska fólkaflokksins, gegnir stöðu dómsmálaráðherra; Li Andersson, leiðtogi Vinstrabandalagsins, er menntamálaráðherra og Maria Ohisalo, leiðtogi Græningja, er innanríkisráðherra. Sari Essayah er formaður Kristilegra demókrata sem er í stjórnarandstöðu.

Stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir; þjóðernishyggjuflokkurinn Sannir Finnar og Sambandsflokkurinn, hafa aldrei haft konur í fremstu röð.

11 konur og átta karlar í ríkisstjórn

Núverandi ríkisstjórn Finnlands er skipuð 11 konum og átta körlum. Forsætisráðherrann og leiðtogi Jafnaðarmanna, Antti Rinne, er karlmaður. Hlutur kvenna á þingi hefur aukist úr 9,5% árið 1907 í 47% sem kjörnar voru í þingkosningunum í apríl síðastliðnum.

Haft er eftir Katri Kulmuni, nýkjörnum formanni finnska Miðflokksins, að á meðan það hlutfall sé ekki jafnt á milli kynja sé verk að vinna.

mbl.is