Svipti sig lífi sökum tíðablæðingaskammar

Í Keníu voru lög sett árið 2017 sem kveða á …
Í Keníu voru lög sett árið 2017 sem kveða á um að skólastúlkum skuli útvegaðar tíðavörur. Ljósmynd/Doug Linstedt

Fjórtán ára gömul stúlka í Keníu svipti sig lífi á dögunum eftir að hafa verið niðurlægð af kennara sínum sökum tíðablæðinga.

Að sögn móður stúlkunnar niðurlægði kennari hennar hana þegar hún hafði blæðingar og blætt hafði í skólabúninginn hennar. Í kjölfar sjálfsvígs stúlkunnar þurfti lögregla að beita táragasi til að sundra hópi 200 foreldra sem mótmæltu fyrir utan skólann.

Greint er frá málinu á vef BBC, en þar segir að í Keníu hafi lög verið sett árið 2017 sem kveða á um að skólastúlkum skuli útvegaðar tíðavörur. Hins vegar er málið nú í rannsókn innan ráðs á vegum þingsins, en enn á eftir að innleiða lögin í einhverja skóla í landinu.

Móðir stúlkunnar segir að kennarinn hafi kallað hana skítuga fyrir að hafa óhreinkað skólabúninginn sinn og rekið hana heim úr skólanum. Hún hafi hins vegar ekki haft aðgang að hreinlætisvörum og hafi því ekki getað að þessu gert, að sögn móðurinnar.

Stúlkan sagði móður sinni frá atvikinu þegar hún kom heim úr skólanum. Þegar móðirin hafi farið að sækja vatn hafi stúlkan hengt sig.

Fjöldi foreldra hefur mótmælt aðgerðaleysi skólans og lögreglu. Fimm voru handteknir í mótmælum fyrir að loka vegi og rífa niður hlið skólans. Skólanum hefur verið lokað tímabundið vegna atviksins og mótmælanna.

mbl.is