Þriggja ára látin bera vitni í nauðgunarmáli

Íbúar Búrma búa enn flestir í dreifbýli og tíðkast enn …
Íbúar Búrma búa enn flestir í dreifbýli og tíðkast enn í sumstaðar að öldungar hvers þorps úrskurði í þeim. Mynd úr safni. STR

Þriggja ára stúlka sem talin er hafa verið nauðgað á leikskóla í Búrma (Mijanmar) verður látin bera vitni í málinu í gegnum myndbandssíma.

BBC segir málið hafa valdið mikilli reiði í landinu, en réttarhöldin fara fram í höfuðborginni Nay Pyi Taw.

Nafn stúlkunnar hefur ekki verið gefið upp, en þeir sem berjast fyrir réttlæti henni til handa hafa kallað hana „Victoriu“.

Lögregla segir atvikið hafa átt sér stað í maí á þessu ári og var einn starfsmaður leikskólans sem hún dvelur á handtekinn og ákærður fyrir að hafa nauðgað henni. DNA-sýni sem tekin voru reyndust hins vegar ófullnægjandi og starfsfólk leikskólans hefur dregið í efa að starfsmaðurinn sé hinn raunverulegi brotamaður.

Victoria var látin sæta læknisskoðun eftir að móðir hennar tók eftir sárum á henni og segir lögregla skoðun á sjúkrahúsi hafa sýnt að hún hafi verið misnotuð kynferðislega.

Fjölmargir hafa í kjölfarið krafist réttlætis fyrir Victoriu og háværar kröfur hafa verið um fleiri handtökur vegna mikillar fjölgunar tilkynninga vegna kynferðisbrota, ekki síst í garð barna.

Íbúar Búrma búa enn flestir í dreifbýli og tíðkast enn í sumum héruðum að öldungar viðkomandi þorps hafi umsjón með slíkum kærum, sem stundum endi með því að fórnarlambið sé hvatt til að giftast árásarmanninum. Þá telst það ekki viðurkenndur glæpur í Búrma að karlmenn geti orðið fyrir nauðgun.

mbl.is