Var ekki rekinn heldur sagði upp

John Bolton (t.v.) fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, hlýðir hér á forsetann …
John Bolton (t.v.) fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, hlýðir hér á forsetann tjá sig á blaðamannafundi með erlendum þjóðhöfðingja. AFP

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti tilkynnti á Twitter í gær að hann hefði gert þjóðarör­ygg­is­ráðgjafa sín­um John Bolt­on að taka pok­ann sinn. Bolton tjáði sig skömmu síðar og sagðist hafa boðist til að segja af sér á mánudag, en forsetinn hefði þá sagt „ræðum það á morgun“.

Guardian segir Bolton hafa haldið áfram að fullyrða í gær að hann hefði ekki verið rekinn heldur hefði hann sagt upp og hafi hann m.a. sent póst þess efnis til Washington Post og Fox News.

Segir Guardian uppsagnarbréf Boltons hafa verið mjög snubbótt. „Ég segi hér með upp sem þjóðaröryggisráðgjafi forsetans og tekur uppsögn mín gildi samstundis. Ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að þjóna landi okkar,“ var heildarlengd bréfsins. 

Guardian segir brottreksturinn eða uppsögnina beina kastljósinu enn á ný að vaxandi spennu milli nánasta teymis Trumps og ráðgjafa hans um stefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum.  Það hafi þó ekki komið sérlega á óvart að Bolton viki þar sem Trump hafi um margra mánaða skeið gert lítið til að leyna óánægju sinni með þjóðaröryggisráðgjafann sem lá ekki á skoðunum sínum.

New York Times segir Bolton m.a. hafa neitað að koma fram í sjónvarpi eftir fund G7-ríkjanna í Sviss í ágúst til að verja skoðanir Trumps varðandi Rússland.

Bolton og Trump voru þó ekki ósammála um allt og voru t.d. báðir þeirra skoðunar að segja ætti Bandaríkin frá kjarnorkusamkomulaginu við Íran frá 2015 og að segja ætti upp INF-kjarnorkusamningnum við Rússland um bann við framleiðslu meðaldrægra kjarnaflauga.

Sú aðferð Trumps að takast einn á við leiðtoga ríkja á borð við Rússland og Norður-Kóreu og nú síðast talibana í Afganistan og lýsa sig viljugan til samninga við þessar þjóðir féll hins vegar Bolton illa í geð. Hefur Boltan enda aldrei farið leynt með þá skoðun sína að sýna þurfi hernaðarmátt Bandaríkjanna.

Bolton er einnig sagður hafa lent upp á kant við Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna og er ástandið undanfarna daga sagt hafa verið svo slæmt að þeir ræddust ekki við. Eins kom honum illa saman við Mick Mulvaney, starfandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, ekki síst vegna þess að Bolton neitaði að veita þeim stefnumálum forsetans sem hann var ósammála forgöngu.

„Það var Bolton eðlislægt að reka þjóðaröryggisráðið eins og æðstavald, en hann tróð of mörgum um tær,“ segir Mark Groombridge sem starfaði fyrir Bolton í ein tíu ár.

mbl.is