Fjöldi látinna muni aldrei komast á hreint

Hús á eyjunni eru byggð til að þola fellibyli. Engu …
Hús á eyjunni eru byggð til að þola fellibyli. Engu að síður líta flest þeirra svona út eftir að Dorian reið yfir. Ljósmynd/Völundur Snær

„Tala látinna er ekki komin á hreint en ég veit samt að líkhúsið er yfirfullt. Reglurnar hérna eru þær að ef þú ert ekki fundinn þá ertu ekki úrskurðaður látinn og ef það er ekki búið að bera kennsl á ákveðið lík þá er viðkomandi ekki úrskurðaður látinn heldur,“ segir Völundur Snær Völundarson matreiðslumaður í samtali við mbl.is.

Völundur er staddur á Grand Bahama-eyju á Bahamaeyjum þar sem hann hjálpar bágstöddum fórnarlömbum fimmta stigs fellibylsins Dorian sem skreið yfir Bahamaeyjar í byrjun mánaðar með skelfilegum afleiðingum. Fjölmargir létu lífið, enn fleiri misstu heimili sín og þær byggingar sem stóðu bylinn af sér eru rafmagnslausar og án rennandi vatns.

Hann hefur komið sér fyrir á Pelican Bay-hótelinu á eyjunni, sem er ein af fáum byggingum sem ekki eru rafmagnslausar, og eldar þar fyrir sjúkrahúsið á eyjunni og björgunarsveitafólk ásamt því að hjálpa hótelstarfsmönnum að koma hótelinu á laggirnar að nýju. Fyrri hluta dags eldar hann þar en eftir hádegi fer hann svo og aðstoðar hjálparsamtökin World Central Kitchen við að elda ofan í heimilislausa og þá sem fóru illa út úr hamförunum.

Völundur Snær Völundarson matreiðslumaður bjó á Grand Bahama í tólf …
Völundur Snær Völundarson matreiðslumaður bjó á Grand Bahama í tólf ár og rann blóðið til skyldunnar. Hann hefur staðið vaktina og eldað fyrir sjúkrahúsið og hjálparsamtökin World Central Kitchen. Ljósmynd/Völundur Snær

Dorian var á allt öðrum skala

Völundur bjó ásamt eiginkonu sinni á Bahamaeyjum í tólf ár og flutti þaðan til Íslands árið 2012. Hann segist sjálfur hafa upplifað fjóra fellibyli og hann veit því vel hvaða afleiðingar svona náttúruhamfarir hafa.

„Það verður vatnslaust, rafmagnslaust og það flæðir inn hjá fólki. En þetta [Dorian] var á allt öðrum skala en er hægt að ímynda sér. Sjórinn hækkaði á mörgum stöðum um átta metra og það er bara ekki hægt að útskýra þetta,“ segir hann og greinilegt að honum er mikið niðri fyrir. Hann reynir þó að lýsa aðstæðum:

„Það fljóta bara um skip í garðinum þínum og það brotnar allt í mask. Fólk var að fela sig uppi á háalofti og skríða undir þaksperrurnar. Margir björguðu sér þannig en margir drukknuðu líka þannig því þeir höfðu enga útgönguleið. Einhverjir náðu þó að brjóta sér leið út en aðrir ekki.“

Sjór flæddi yfir eyjuna alla og hér má sjá stærðarinnar …
Sjór flæddi yfir eyjuna alla og hér má sjá stærðarinnar bát sem skolaði upp á land. Ljósmynd/Völundur Snær

Börn fuku af húsþökum og flutu burt með straumnum

Eftir dvöl sína á Bahamaeyjum þekkir Völundur vel til og á marga vini. Hann var í stöðugu sambandi við nokkur hundruð manns í gegnum spjallþráð á samfélagsmiðlum. Hann fékk því að vita nákvæmlega hvernig aðstæður voru í rauntíma.

„Fólk reyndi að koma sér út úr byggingum, sumir sáu aðra byggingu sem var hærri og reyndi að koma sér á milli en straumurinn í sjónum var slíkur að fólk náði ekki á milli. Fólk var að setja börnin sín upp á þök en þau fuku niður. Þá týndu margir börnum við það að reyna að synda á milli húsa,“ útskýrir hann.

Ljósmynd/Völundur Snær

Fáir geta ímyndað sér aðstæðurnar sem myndast í svona náttúruhamförum en þeir sem hafa upplifað slíkt vita hversu öflug móðir náttúra getur verið. Fellibylnum Dorian fylgdi ekki bara vindhraði sem náði rúmlega 80 metrum á sekúndu heldur gríðarlega straumhart flóð sem þyrmdi fáum sem í því lentu enda mikill meirihluti íbúa Bahamaeyja ósyndur.

„Tragedían hérna á Grand Bahama er eitt en svo eru aðstæður í Abaco, East End og High Rock katastrófískar,“ bætir Völundur við. Þegar hann frétti af hörmungunum ákvað hann að fljúga strax á staðinn og aðstoða.

„Ég á gríðarlega sterkar tengingar og mikið af vinum þannig að ég vildi bara reyna að komast hingað til að hjálpa. Það er svo ofboðslega erfitt að koma hlutunum af stað. Fólk veit ekkert hvort starfsfólkið þess sé á lífi eða hvernig það komst út úr storminum,“ segir hann.

Ekkert rennandi vatn er á eyjunni né ferskvatn. Hér sjást …
Ekkert rennandi vatn er á eyjunni né ferskvatn. Hér sjást bandarískir hermenn ferja vatnsbrúsa í land. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography

Sækir vatn í sundlaugar til að sturta niður

Þegar hann kom til Grand Bahama var ennþá rafmagnslaust á Pelican Bay-hótelinu. Starfsmenn þar náðu hins vegar að koma upp stórri rafstöð og byrjuðu samstundis að elda um 600 máltíðir á dag fyrir sjúkrahúsið á svæðinu. Hótelið og nokkrar aðrar byggingar í nágrenni þess eru því komnar með rafmagn núna og er hótelið notað til að hýsa skipulögð björgunarteymi.

Daglega eru útbúnar máltíðir fyrir þúsundir.
Daglega eru útbúnar máltíðir fyrir þúsundir. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography

„Það er hins vegar ennþá vatnslaust. Við erum að vísu með vatn í flöskum til að elda, vaska upp og fleira en það labba allir með fötu út um allt til þess að sækja vatn í sundlaugar til að geta sturtað niður úr klósettum,“ útskýrir Völundur og bætir við:

„Aðstæðurnar eru skelfilegar, núna er ég með hanska á höndunum að elda fyrir sjúkrahúsið án rennandi vatns. Ég er ekki búinn að fara í sturtu síðan ég kom á sunnudaginn.“

Fólkið með „jákvæðisgen“ og allir hjálpast að

Þrátt fyrir hörmungarnar er andinn í fólki ótrúlega góður að sögn Völundar. „Þetta er einstakt fólk, það er með jákvæðisgen og er bara að reyna koma þessu í samt horf og allir vinna saman.“

Þá bætir hann við að margir starfsmenn Pelican Bay-hótelsins hafi lent í flóðinu og hús þeirra skemmst en „þau mæta samt í vinnuna“. Baráttuviljinn er mikill segir hann.

Hjá WKC leggjast allir á eitt við að koma mat …
Hjá WKC leggjast allir á eitt við að koma mat til fólks. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography

Þrátt fyrir að fjölmargir séu heimilislausir og búi nú í skýlum eða láti fyrirberast í kirkjum reyna allir að láta gott af sér leiða. Hjálparsamtökin World Central Kitchen elda hátt í 20 þúsund máltíðir á dag með aðstoð sjálfboðaliða eins og Völundar. Máltíðunum er svo dreift í skýli og kirkjur og þar sem fólk getur ekki orðið sér úti um næringu sjálft.

Meira en 17% íbúa Bahamaeyja heimilislaus

Fjölmiðlar bæði hér heima og ytra hafa greint frá hörmungunum og í gær var sagt frá því að allt að 17% íbúa Bahamaeyja væri heimilislaus eftir hamfarirnar. Völundur telur þann fjölda varlega metinn.

„Það eru einhver hús sem flæddi ekki inn í og þau eru í minnihluta. Svo eru gríðarlega mörg hús sem flæddi inn í sem standa ennþá en það er allt ónýtt inni í þeim og það myglar allt ef þau eru ekki tæmd strax. Svo eru fjölmörg hús sem eru gjörónýt. Fólk er búið að moka öllum eigum sínum út fyrir húshorn,“ segir hann og heldur áfram:

„Það eru um 50 þúsund íbúar bara á Grand Bahama og það er sagt að 17% íbúa Bahamaeyja séu heimilislaus en það er bara á þessum tveimur eyjum [Grand Bahamas og Abaco]. Abaco er bara búin og á Grand Bahama er allt í rugli líka.“

Bandaríski sjóherinn var mættur á Grand Bahama í byrjun síðustu …
Bandaríski sjóherinn var mættur á Grand Bahama í byrjun síðustu viku. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography

Ekki viss um að það fáist botn í fjölda látinna einstaklinga

Völundur segir að yfirvöld vilji ekki gefa upp opinbera tölu yfir látna meðal annars vegna verklagsreglna sem hann lýsti áður. Hann veit til þess að björgunarfólk hafi fundið 11 látna einstaklinga á þriðjudaginn sem höfðu fest inni og drukknað á háalofti íbúðarhúss.

„Ég veit ekki hvort það mun fást almenningur botn í tölu látinna. Svo er fullt af fólki sem flaut í burtu,“ segir hann.

Fjöldi fólks slasaðist í fellibylnum og enn er fólk að …
Fjöldi fólks slasaðist í fellibylnum og enn er fólk að finnast á lífi víðs vegar um eyjuna en björgunarsveitir hafa unnið að því að kemba eyjuna og leita að fólki á lífi. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography

Þá nefnir Völundur að samfélag fjölmargra Haítí-búa á Abaco-eyju hafi nánast horfið. „Þeir voru búsettir á svæði sem er kallað í leðjunni (e. In the mud) og fengu að búa þar í friði. Það hreinsaðist í burtu og það vissi enginn hversu margir bjuggu þar. Menn komast aldrei að því hvað gerðist þar.“

Allir nánir vinir Völundar komust lífs af úr náttúruhamförunum en hann veit af fjölda fólks sem hann kannaðist við sem lét lífið. Hann segir ómögulegt að segja hvenær hlutirnir muni komast í þokkalegt horf á nýjan leik og þá sé einnig ómögulegt að segja til um hvenær vatnið kemst aftur á en telur að rafmagnið muni koma smátt og smátt.

Umhverfistjónið sem enginn talar um

Í austurhluta Grand Bahama var olíudreifingarstöð norska olíuríkisfyrirtækisins Equinor þar sem fjöldinn allur af olíutunnum var geymdur. Húsnæði dreifingarstöðvarinnar fauk í fellibylnum og olía lak út um allt svæðið.

„Það fauk ofan af því og varð meiriháttar umhverfistjón. Mikill olíuleki og mjög skammt frá High Rock,“ segir Völundur. Hann hefur haft spurnir af því að norsk yfirvöld ætli að senda 400 manns til Grand Bahama til að byggja heilt þorp fyrir aðila sem eiga að hreinsa upp lekann og það eigi að taka um það bil eitt ár að hreinsa það upp.

Hér sést Sanique Culmer tilkynna hvarf ástvinar sem hefur ekki …
Hér sést Sanique Culmer tilkynna hvarf ástvinar sem hefur ekki sést síðan fellibylurinn reið yfir. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography

Á meðan lekur þó olían í jarðveginn, sem er blanda af kalksteini og kóral, auk þess sem stór hluti drykkjarvatns er tekinn þaðan. „Það sér ekki fyrir endann á því hvernig þetta fer því allir einblína á mannslífin. Bara þetta eitt og sér er vandamál sem enginn veit hvaða afleiðingar muni hafa í för með sér eða hvernig fólk ætlar að byggja svæðið aftur upp,“ segir hann að lokum áður en hann heldur áfram að elda fyrir sjúkrahúsið.

Bandaríski herinn ferjar hér bifreiðar og vinnuvélar á land til …
Bandaríski herinn ferjar hér bifreiðar og vinnuvélar á land til að sinna hreinsunarstörfum og til að geta komið aðstoð til fólks. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography
Aðstaðan sem World Central Kitchen hefur komið sér upp.
Aðstaðan sem World Central Kitchen hefur komið sér upp. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography
Heimamenn eru flestu vanir þegar kemur að fellibyjum og hús …
Heimamenn eru flestu vanir þegar kemur að fellibyjum og hús á eyjunni eru byggð til að þola slík óveður. Enginn hefur áður upplifað fellibyl af þessari stærðargráðu og sem hegðaði sér á sama hátt og Dorian gerði. Veðrakerfi hreyfast og yfirleitt fer fellibylur yfir á 6-12 klukkustundum. Dorina var hins vegar yfir 30 klukkustundir að berja á Grand Bahama þar sem ölduhæðin náði allt upp í átta metra. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography
Bráðabirgðasjúkrahúsið er nokkuð vel í stakk búið til að taka …
Bráðabirgðasjúkrahúsið er nokkuð vel í stakk búið til að taka á móti fólki. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography
Búið er að setja upp bráðabirgða sjúkrahús.
Búið er að setja upp bráðabirgða sjúkrahús. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography
Neyðarteymi hafa unnið ötullega og verið vel skipulögð.
Neyðarteymi hafa unnið ötullega og verið vel skipulögð. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography
Á sjúkrahúsinu er nóg við að vera.
Á sjúkrahúsinu er nóg við að vera. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography
Stórar pönnur eru notaðar til að matreiða eftir kúnstarinnar reglum.
Stórar pönnur eru notaðar til að matreiða eftir kúnstarinnar reglum. Ljósmynd/Lyndah Wells Photography
mbl.is