Lík fannst á Google Maps eftir 22 ára leit

Í vesturhorni tjarnarinnar má sjá glitta í bíl William Holdt.
Í vesturhorni tjarnarinnar má sjá glitta í bíl William Holdt. Kort/Google

Líkamsleifar manns sem saknað hafði verið í rúma tvo áratugi fundust í bifreið hans sem var á botni tjarnar í Wellington í Flórídaríki í Bandaríkjunum. Loftmynd Google Maps sýndi bílinn ofan í tjörninni og við eftirgrennslan fundust líkamsleifar mannsins eftir leit sem hafði staðið í 22 ár.

BBC greinir frá. 

Tilkynnt var um hvarf mannsins, Williams Moldts,  7. nóvember árið 1997. Moldt, sem var þá fertugur, hafði farið á næturklúbb það kvöld en skilaði sér aldrei heim. Lögregla hóf rannsókn á hvarfi hans en Moldt fannst ekki og rannsóknin fjaraði út.

Það var svo ekki fyrr en 28. ágúst síðastliðinn að lögregla var kölluð út vegna bifreiðar sem hafði fundist í tjörn í Wellington-hverfi, um 30 kílómetrum frá heimili mannsins í Lantana-hverfi í Flórída. Bifreiðin var dregin upp úr tjörninni og við skoðun fannst beinagrind. Viku síðar var staðfest með erfðaefnisrannsókn að um líkamsleifar Moldts væri að ræða.

William Moldt hvarf árið 1997 og fannst ekki fyrr en …
William Moldt hvarf árið 1997 og fannst ekki fyrr en 22 árum síðar. Ljósmynd/Twitter

Samkvæmt samtökunum the Charley Project, sem hald úti gagnagrunni um óleyst lögreglumál, hafði myndin á Google Maps verið sýnileg almenningi síðan árið 2007 en enginn virðist hafa tekið eftir bílnum í tjörninni fyrr en tólf árum síðar þegar landmælingamaður skoðaði svæðis á vefsíðunni Google Earth.

Myndina sem sýnir silfraðan bílinn í tjörninni má enn finna á Google Maps.

Lögreglustjóri Palm Beach-sýslu í Flórídaríki sagði fjölmiðlum að kenningin væri sú að Moldt hefði misst stjórn á bíl sínum og keyrt hann út í tjörnina. Þegar hvarf hans var rannsakað fyrir 22 árum var ekkert sem benti til þess að hann hefði keyrt þar ofan í.

„Það er ómögulegt að segja til um hvað gerðist svona mörgum árum síðar. Það eina sem við vitum er að hann hvarf af yfirborði jarðar og núna er hann fundinn,“ sagði talskona lögreglunnar við fjölmiðla.

Samkvæmt gögnum frá árinu 1997 yfirgaf Moldt næturklúbbinn sem hann var á klukkan ellefu að kvöldi til. Hann er sagður hafa verið hlédrægur einstaklingur sem hafi sjaldan farið út að skemmta sér. Hann virtist ekki vera undir áhrifum áfengis þegar hann yfirgaf staðinn og keyrði brott. Hann er þó sagður hafa fengið sér nokkra drykki það kvöld.

Moldt hringdi í kærustuna sína klukkan hálftíu það kvöld til að segja henni að hann væri væntanlegur heim. Það var það síðasta sem einhver heyrði frá honum.

mbl.is