Ísraelar sakaðir um að koma njósnabúnaði við Hvíta húsið

Hvíta húsið í Washington. Njósnabúnaðurinn er sagður vera eftirlitsbúnaður sem …
Hvíta húsið í Washington. Njósnabúnaðurinn er sagður vera eftirlitsbúnaður sem líkir eftir samskiptum farsímaturna og safnar þannig upplýsingum, m.a. innihaldi símtala. AFP

Ísraelsk stjórnvöld eru talin hafa komið eftirlitsbúnaði fyrir í nágrenni Hvíta hússins á sl. tveimur árum. Vefurinn Politico greinir frá þessu og hefur eftir þremur fyrrverandi embættismönnum bandarískra yfirvalda að um sé að ræða eftirlitsbúnað fyrir farsíma sem hafi verið komið fyrir á viðkvæmum stöðum í Washington.

Um er að ræða eftirlitsbúnað sem líkir eftir samskiptum farsímaturna og safnar þannig upplýsingum, m.a. innihaldi símtala. Eru bandarísk stjórnvöld sögð hafa ályktað að ísraelskir útsendarar væru líklegastir til að hafa komið búnaðinum fyrir í því skyni að njósna um Donald Trump Bandaríkjaforseta og samstarfsmenn hans.

Guardian segir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hafa hafnað ásökununum og sagt þær „helbera lygi“. Ísraelsríki hafi um langa hríð haldið það loforð að „stunda enga njósnastarfsemi í Bandaríkjunum“.

Politico vísar í grein sinni í þrjá nafnlausa heimildamenn, sem ýmist unnu fyrir bandarískar leyniþjónustustofnanir eða þjóðaröryggisstofnunina. Segja þeir Trump-stjórnina ekki hafa sett ofan í við Ísraelsmenn þegar útbúnaðurinn uppgötvaðist, en stjórnin hefur lýst sér sem þeirri ríkisstjórn sögunnar sem sé hvað hlynntust samskiptum Bandaríkjanna og Ísraels.

„Viðbrögðin voru mjög ólík því sem þau hefðu verið í tíð síðustu stjórnar,“ sagði einn heimildamannanna og vísaði þar til stjórnar Baracks Obama. „Hjá núverandi stjórn eru annars konar útreikningar um hvernig eigi að taka á þessu.“

Segir Politico bandarísku alríkislögregluna FBI og aðrar stofnanir hafa notað flókinn tæknibúnað, svonefndan StingReys-búnað, sem hefði tengt þá ísraelsku útsendurunum. „Það var nokkuð ljóst að það voru Ísraelsmenn sem báru ábyrgð á þessu,“ sagði annar heimildamaður sem áður starfaði í leyniþjónustunni.

Talsmaður ísraelska sendiráðsins í Washington, Elad Strohmayer, hefur hins vegar hafnað ásökununum og sagt þær algjört bull. „Ísraelar stunda ekki njósnir í Bandaríkjunum. Punktur,“ sagði hann.

Hvorki Hvíta húsið, FBI, leyniþjónustan né bandaríska heimavarnaráðuneytið vildu hins vegar tjá sig.

mbl.is