1.300 saknað á Bahamaeyjum eftir Dorian

Íbúar á Abaco bíða þess hér að komast sjóleiðina á …
Íbúar á Abaco bíða þess hér að komast sjóleiðina á brott frá eyðileggingunni. AFP

1.300 er enn saknað á Bahamaeyjum eftir að fellibylurinn Dorian fór þar yfir í síðustu viku. Fyrr í vikunni höfðu 2.500 verið á lista yfir þá sem saknað er, en það fækkaði verulega í hópnum eftir að hjálparsveitir báru þá saman við lista yfir þá sem höfðust við í neyðarskýlum.

50 manns hið minnsta fórust er Dorian fór yfir Bahamaeyjar og er búist við að tala látinna eigi eftir hækka.

Hubert Minnis, forsætisráðherra Bahamaeyja, sagði í sjónvarpsávarpi á miðvikudag að stjórnvöld reyndu að gæta fyllsta gagnsæis og að veittar væru upplýsingar um fjölda látinna þegar þær lægju fyrir.

Vindstyrkur Dorian, sem var fimmta stigs fellibylur er hann tók land á Abaco-eyjum, var 295 km/klst.

BBC hefur eftir Anthony Ferguson, lögreglustjóra á Bahamaeyjum, að leit að látnum gangi hægt. „Við þurfum að fara í gegnum allt brakið og gefa okkur tíma til að leita,“ sagði hann. „Það mun taka langan tíma þar til hægt verður að segja þetta með einhverri vissu.“

Snekkjur og bátar við höfnina á Abaco eru í rúst.
Snekkjur og bátar við höfnina á Abaco eru í rúst. AFP

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau myndu veita yfirvöldum á Bahamaeyjum fjórar milljónir dollara í mannúðaraðstoð vegna Dorian og er það fé ætlað í neyðarskýli, matvæli, lyf og vatn fyrir íbúa Abaco og Grand Bahama, sem urðu hvað verst úti.

Þegar hafa rúmlega 5.000 manns verið fluttir á brott frá Grand Bahama og Abaco og til eyjarinnar New Providence, þar sem Nassau, höfuðborg Bahamaeyja, er.

Að sögn almannavarna Bahamaeyja (Nema) hefur nú dregið verulega úr fjölda þeirra sem vilja komast á brott, en um 15.000 manns eru þó enn sagðir þurfa á húsaskjóli eða matvælum að halda.

Íbúar í Mars Harbour á Abaco reyna hér að laga …
Íbúar í Mars Harbour á Abaco reyna hér að laga þak húss eftir eyðilegginguna. AFP
mbl.is