Áhöfnin svaf á verðinum

AFP

Öll áhöfn köf­un­ar­bátsins Concepti­on var sofandi þegar eldur kom upp í bátnum í Kaliforníu í síðustu viku. 34 létust í eldsvoðanum en sex voru í áhöfn bátsins, samkvæmt upplýsingum frá samgönguslysanefnd.

Nefndin gaf út bráðabirgðaskýrslu um slysið í gær en slysið er alvarlegasta sjóslys ríkisins í manna minnum. Samkvæmt lögum Kaliforníu bar Conception skylda til að vera með næturvörð sem mætti ekki sofna á vaktinni. Hans hlutverk væri meðal annars að láta aðra vita ef eldur eða önnur óhöpp kæmu upp.

Í skýrslunni kemur fram að einn úr áhöfn bátsins hafi náð að vekja aðra um borð eftir að hann vaknaði við hávaða klukkan 3:15 um nóttina og sá eldinn. Þegar áhöfnin vaknaði sendi skipstjórinn strandgæslunni neyðarkall. Áhöfnin hafi reynt að ná til farþeganna og koma þeim til bjargar án árangurs.

AFP

Alls voru 33 farþegar um borð og drukknuðu þeir allir auk eins úr áhöfninni sem var sofandi neðanþilja. Fimm úr áhöfninni stukku frá borði eftir að björgunartilraunir mistókust og ólíft var þar vegna reyks og elds. Tveir skipverjar auk skipstjórans reyndu að komast aftur um borð til þess að bjarga farþegunum án árangurs.

mbl.is