„Ég hef aldrei upplifað annað eins“

„Ég hef aldrei upplifað annað eins á þessum 16 árum sem ég hef búið hér. Ástandið er mjög slæmt á mörgum stöðum,“ segir Guðrún Helga Gísladóttir sem býr í Murcia á Spáni um úrhellisrigningu og flóð sem hafa leikið suðausturhluta landsins grátt síðustu tvo daga. 

Guðrúnu kom varla dúr á auga í nótt því veðrið ólmaðist fyrir utan. „Það voru nánast þrumur og eldingar í alla nótt og rigningin buldi á rúðunni,“ segir hún. Talað er um að síðast hafi veðrið verið jafnslæmt fyrir 100 árum. Til samanburðar hefur áin Segura sem rennur í gegnum borgina margfaldað umfang sitt. Vatnsmagn hennar er vanalega um 10 lítrar á sekúndu en nú fara um 200 lítrar á sekúndu um hana. 

Vitað er að tveir hafa látið lífið og fjölmörgum hefur verið bjargað úr straumhörðum ám. Eignartjónið er gríðarlegt, fjöldi dýra hafur drepist og ekki er enn ljóst hversu mikið tjónið hefur orðið, til að mynda á ræktarlandi. 

Guðrún er samt ein af þeim heppnu því svæðið í kringum hana hefur ekki farið verst út úr flóðunum. Beggja vegna við hverfið sem hún býr í eru eins konar „römblur“ sem vatn rennur í gegnum á leið sinni út í sjó. Þær eru yfirfullar og við það að flæða yfir bakka sína. 

Viðbragðsaðilar sem og íbúar á svæðunum voru undirbúnir fyrir úrhellið því viðvaranir höfðu verið gefnar út og skólum lokað. Rauð viðvörun er enn í gildi og verður til morguns þar sem fólk er hvatt til að halda sig innandyra og vera ekki á ferli á einkabílum. „Ég hef ekki séð viðbragðsaðila gera það áður,“ segir hún.   

Í gær var flugvellinum á Alicante lokað vegna úrhellis en flugstöðvarbyggingin var víst á floti. Guðrún bendir á að margar byggingar séu ekki byggðar fyrir slíka veðráttu. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert