„Ég mun hindra Boris í að brjóta lögin vegna Brexit“

John Bercow, þingforseti neðrideildar breska þingsins, ætlar að leyfa þingmönnum …
John Bercow, þingforseti neðrideildar breska þingsins, ætlar að leyfa þingmönnum að beita sköpunargáfunni til að hindra samningslausa útgöngu Bretlands úr ESB. AFP

John Bercow, forseti neðri deildar breska þingsins, hótar nú Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, að hann sé reiðubúinn að rífa reglugerð þingsins til að hindra allar ólöglegar tilraunir forsætisráðherrans til að láta Breta ganga samningslausa úr Evrópusambandinu hinn 31. október.

Guardian segir Bercow hafa sagst vera reiðubúinn að leyfa þingmönnum að láta reyna á sköpunargáfu sína sé það nauðsynlegt svo hindra megi Johnson í að hunsa lögin.

„Ef við förum nærri því [að Johnson hunsi lögin], þá get ég ímyndað mér að þingið muni vilja hindra þann möguleika,“ sagði Bercow á fyrirlestri sem hann hélt í London. „Hvorki takmarkanir núverandi reglugerðar né niðurtalning klukkunnar mun koma í veg fyrir það. Hafi ég á minnsta hátt verið óljós í orðum til þessa, þá skal ég gera þetta kristaltært. Eina brexit-útgáfan sem við höfum, hvenær sem það mun verða, er sú sem neðri deild þingsins hefur sérstaklega sett nafn sitt við.“

Bercow tilkynnti nýlega að hann myndi hætta sem þingforseti í lok október og kann slík dramatísk íhlutun því að verða eitt hans síðasta verk sem þingforseti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert