Gefa upp nafn þriðja mannsins

Hópur fólks hefur höfðað mál gegn stjórnvöldum í Sádi-Arabíu vegna …
Hópur fólks hefur höfðað mál gegn stjórnvöldum í Sádi-Arabíu vegna meintrar aðildar stjórnvalda þar í landi að árásinni á Tvíburaturnanna þann 11. september 2001. Wikipedia

Bandaríska dómsmálaráðuneytið greindi frá því í gær að það myndi gera opinbert nafn einstaklings sem leitað er af hópi fólks sem höfðað hefur mál gegn stjórnvöldum í Sádi-Arabíu vegna meintrar aðildar stjórnvalda þar í landi að árásinni á Tvíburaturnanna hinn 11. september 2001.

Saksóknari í New York greinir frá því í dómsskjölum að dómsmálaráðherrann William Barr hafi ákveðið að krefjast ekki leyndar og að lögfræðingar kærenda muni fá upp gefið nafn einstaklingsins.

Reuter-fréttaveitan segir nafnbirtinguna kunna að hjálpa fórnarlömbum árásanna á Tvíburaturnana og fjölskyldum þeirra varðandi málaferlin, en þau hafa haldið því fram að flugræningjarnir sem flugu farþegaþotunum á Tvíburaturnana hafi notið stuðnings sádiarabískra stjórnvalda. Tæplega 3.000 manns létust í árásunum.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa ítrekað hafnað aðild að árásunum. Málið var fyrst höfðað árið  2003 og fékk svo byr undir báða vængi árið 2016 þegar Bandaríkjaþing samþykkti lög sem gera einstaklingum auðveldara um vik að höfða mál gegn stjórnvöldum erlendra ríkja fyrir meinta aðild þeirra að hryðjuverkum.

Kærendur hafa reynt að fá aðgang að ritskoðaðri skýrslu bandarísku alríkislögreglunnar FBI frá 2012 sem gefur í skyn að FBI hafi verið með tvo sádiarabíska embættismenn, þá Omar al-Bayoumi og Fahad al-Thumairy, til rannsóknar. Í skýrslunni segir jafnframt að vísbendingar hafi verið um að þriðji maðurinn, sem ekki var nefndur á nafn, hafi skipað þeim að aðstoða flugræningjana.

Munu lögfræðingar kærenda fá gefið upp nafn þess einstaklings, en verður neitað um að greina frá því hver það sé.

„Við hlökkum til frekari afhjúpana á næstu vikum og mánuðum,“ sagði í yfirlýsingu frá Don Milgiori og Sean Carter, tveimur lögfræðingum kærendanna.

mbl.is