Stöðvuðu drónaumferð við Heathrow

Heathrow-flugvöllur er við London.
Heathrow-flugvöllur er við London. AFP

Lögreglan í London greip til óvenjulegra ráðstafana í morgun með því að loka fyrir ákveðnar útvarpsbylgjur í nágrenni Heathrow-flugvallar til að koma í veg fyrir að loftslagsaðgerðasinnar gætu stöðvað umferð um flugvöllinn með leikfangadrónum. Sjö aðgerðasinnar voru handteknir en hvergi í Evrópu er jafnmikil umferð um einn flugvöll og Heathrow.

Aðgerðasinnar úr hópnum Heathrow Pause, sem er hliðarhópur frá Extinction Rebellion-hópnum, en sá hópur nýtur stuðnings Gretu Thunberg, höfðu vonast til þess að stöðva ferðalög tugþúsunda flugfarþega um helgina. 

En ekkert varð af aðgerðunum þar sem fyrsti dróninn sem átti að fara á loft í morgun virkaði ekki þar sem hann fékk ekkert merki frá fjarstýringunni. 

Talsmaður lögreglunnar í London vildi ekki staðfesta þetta við AFP-fréttastofuna í morgun enda upplýsi lögreglan ekki um leynilegar upplýsingar er varða öryggi landsins. Aftur á móti staðfesti hann að sérstakur viðbúnaður væri við flugvöllinn og svo yrði þangað til á sunnudag.

mbl.is