Systkini létust í flóðum á Spáni

Gríðarlegt flóð er á Spáni.
Gríðarlegt flóð er á Spáni. AFP

Að minnsta kosti tveir létust á austurhluta Spánar eftir að stormur með gríðarlegri úrkomu reið yfir landið í gær. Úrkoma sem féll á sólarhring var 180 mm, sem er met, samkvæmt veðurstofu Spánar. Stormurinn gengur yfir Alicante, Murcia og Valencia. Unnið er að því að bjarga fólki á svæðinu. Guardian greinir frá.

Systkini, 51 árs og 61 árs, létust þegar bíll þeirra fór á flot og fannst hann á hvolfi í bænum Caudete sem er um 100 km frá Valencia. Þremur var bjargað upp úr á sem hafði flætt yfir bakka sína. Þyrla náði að hífa einn upp úr ánni. Fjórir lögreglumenn slösuðust við björgunaraðgerðirnar, að sögn slökkviliðsins. 

Stormurinn skall fyrst á bænum Ontinyent sem er suður af Valencia. Að sögn borgarstjórans Jorges Rodríguez hefur úrkoma aldrei mælst jafn mikil á svæðinu en hún hafði farið yfir 400 mm á seinnipartinn í gær. Hann sagði að óskað yrði eftir því við stjórnvöld að svæðið flokkaðist sem hamfarsvæði. 

Ástandið á svæðinu er víða slæmt, vatnseðja flæðir um götur borgarinnar og hrifsar til sín bíla og allt lauslegt. Vatnshæðin nálægt húsum við árbakka nær upp yfir útidyrahurðir. Lestarsamgöngur liggja niðri, vegum er víða lokað og skólahald hefur verið fellt niður og eru því um 300.000 nemendur heima.   

mbl.is