Annar stormur skollinn á Bahama

Bahamaeyjar fóru illa út úr fellibylnum Dorian, sem gekk yfir …
Bahamaeyjar fóru illa út úr fellibylnum Dorian, sem gekk yfir eyjarnar nýverið. AFP

Nýr stormur hefur fært Bahamaeyjum miklar rigningar einungis tveimur vikum eftir að fellibylurinn Dorian skall á eyjunum og lagði þar allt í rúst. 

Stormurinn er hitabeltisstormur og hefur fengið nafnið Humberto. Miðja stormsins er nú í um 50 kílómetra fjarlægð frá Great Abaco Island en eyjan er sú sem varð hvað verst úti vegna Dorian. 

1.300 manns er enn saknað eftir að Dorian reið yfir eyjarnar og 15.000 manns þurfa á skjóli, fæði og læknishjálp að halda.

Björgunarmenn óttast að kröftugir vindar, mikil rigning og flóð næstu daga geti staðið í vegi fyrir því að einhverjir þeirra sem enn er saknað finnist á lífi. BBC greinir frá þessu. 

Hér má sjá ferðalag stormsins til þessa.
Hér má sjá ferðalag stormsins til þessa. Skjáskot/Google Maps

Segir íbúa þurfa að undirbúa sig

„Ég geri mér grein fyrir því að fólk á Abaco og Grand Bahama vill ekki heyra þetta eins og staðan er núna en það er stormur þarna úti og hann mun verða til þess að gríðarleg rigning mun hellast yfir Bahamaeyjar,“ sagði Shavon Bonimy, veðurfræðingur á Grand Bahama, í samtali við fréttamiðil á Bahama, Nassau Guardian. „Þess vegna verðum við að vera undirbúin.“

mbl.is