Brandarinn sem gæti breyst í hörmungar

Margar mýtur hafa spunnist upp um Area 51 í Nevada.
Margar mýtur hafa spunnist upp um Area 51 í Nevada. Kort/Google

Smábæirnir Rachel og Hiko, sem eru á afskekktum stað í Lincoln-sýslu í Nevadahafa fátt sem laðar að gesti. Heildaríbúafjöldi bæjanna er 173 og svo langt sem augað eigið blasir fátt við nema rykugir vegir og þurrt landslag.

Það sem gefur bæjunum sérstöðu sína er hins vegar nálægðin við leynilega herstöð bandaríska flughersins, Area 51 sem margar mýtur hafa spunnist upp um. Herstöðin hefur enda lengi tengst samsæriskenningum um fljúgandi furðuhluti og geimverur. 

Næsta fimmtudag, 19. september, óttast yfirvöld hins vegar að íbúafjöldi Rachel og Hiko muni margfaldast, þegar þúsundir gera sér ferð þangað til að taka þátt í hátíðunum Alienstock og Storm Area 51 Basecamp. 

Matty Roberts óttast að það sem byrjaði sem brandari á …
Matty Roberts óttast að það sem byrjaði sem brandari á Facebook eigi eftir að snúast upp í „mannúðarhörmungar“. Skjáskot/Facebook

Þróuðust út frá brandara á Facebook

Ólíkt mörgum öðrum hátíðum liggur ekki áralangur undirbúningur að baki, heldur þróuðust þær út frá brandara sem var birtur á Facebook fyrir fjórum mánuðum.

Það var í júní sem Matty Roberts, 20 ára nemandi frá Bakersfield í Kaliforníu bjó til viðburð á Facebook undir heitinu „Storm Area 51, They Can't Stop All of Us“ sem útleggja má sem „Ráðumst inn á Svæði 51, þeir geta ekki stoppað okkur öll.“  Planið var, líkt og nafnið gefur til kynna, að nægur mannfjöldi myndi ráðast inn í herstöðina til að komast fram hjá öryggisvörðum. Þegar inn væri komið yrði svo hægt að upplýsa almenning í eitt skipti fyrir öll um leyndarmálin sem þar eiga að leynast — bæði geimverutæknina og leynilegar rannsóknir bandarískra stjórnvalda.

Nú óttast Roberts hins vegar að brandarinn geti þróast yfir í „mögulegar mannúðarhörmungar“.

Viðburðurinn fór eins og stormsveipur um netheima og rataði í fjölmiðla víða um heim. „Ég stofnaði Area 51 viðburðinn á Facebook klukkan tvö að nóttu  27. júní,“ segir Roberts í samtali við BBC. „Þetta var brandari frá upphafi sem fékk helling af athygli alls staðar að og það var frábært.“

Mikill fjöldi hefur boðað komu sína á viðburðinn.
Mikill fjöldi hefur boðað komu sína á viðburðinn. Skjáskot/Facebook

Svipta hulunni af geimverutækninni

Nú þegar hafa 3,5 milljónir manna lýst yfir áhuga á viðburðinum og segir Robert töluverðan fjölda þeirra taka þetta alvarlega.

Einn þeirra er Art Frasik, fasteignasali frá Ohio. Hann segir sig og fleiri vera staðráðna í að komast inn og „svipta hulunni af og fagna geimverufundinum“. „Ég ætla að fara inn á Area 51 af því að fé bandarískra skattgreiðenda borgar fyrir þessa stöð og eftir að vera búin að fela geimverutækni fyrir heiminum í 70 ár þá eigum við rétt á að sjá hana,“ skrifaði Frasik í færslu á Facebook.

Tveir Hollendingar, YouTube stjarna og vinur hans, hafa þegar verið handteknir inni á svæðinu og hafa verið ákærðir fyrir að vera þar í óleyfi. Þeir sögðu lögreglu að þeir hefðu „viljað kíkja á staðinn“.

Fleiri hafa hótað að fara þangað inn þó að sumar færslurnar séu þess eðlis að erfitt sé að taka þær alvarlega.

Bandaríski flugherinn tekur hótanirnar hins vegar alvarlega og segir Laura McAndrews, talskona flughersins, allar tilraunir til að fara inn á þjálfunarsvæði hersins hættulegar.

Fékk FBI í heimsókn eftir færsluna

Robert hefur ítrekað að hann vilji ekki að neinn slasist, en bandaríska alríkislögreglan FBI bankaði upp á hjá honum eftir að hann birti viðburðinn. Segist hann hafa fullvissað lögreglumennina um að hann væri „ekki að búa til rörasprengjur eða annað bilað“.

Hann hefur hins vegar enga stjórn lengur á því sem byrjaði sem brandari.

Nokkrir einstaklingar sem fara inn á svæðið í óleyfi kunna hins vegar að verða minnsta áhyggjuefni fyrir bandaríska flugherinn og yfirvöld í Lincoln-sýslu.

Tvær hátíðir sem nú á að halda í bæjunum á þessum tíma eru nefnilega taldar geta reynt verulega á innviði staðarins. Yfirvöld í Lincoln-sýslu hafa gefið leyfi fyrir bæði Alienstock-hátíðinni, sem á að fara fram á hótelinu Little A'Le'Inn hotel í  Rachel og svo Storm Area 51 Basecamp-hátíðinni sem fara á fram í geimverurannsóknarmiðstöðinni Alien Research Center í Hiko.

Skipuleggendur „Storm Area 51, They Can't Stop All of Us“ …
Skipuleggendur „Storm Area 51, They Can't Stop All of Us“ telja sig geta tekið á móti 5.000 manns. Ljósmynd/Alien Research Center

Vandinn er hins vegar sá að enginn veit hversu margir munu mæta og flakka tölur á bilinu 5.000-50.000 manns, en heimsókn á Area 51 hefur verið pílagrímaferð fyrir samsærissinna sem hafa trúað á geimverur áratugum saman. Facebookviðburður Roberts sannar að staðurinn hefur ekki enn tapað aðdráttarafli sínu. Ef bara 1% facebookgestanna kemur á staðinn, sagði Kerry Lee, lögreglustjóri Lincoln-sýslu, við BBC, þá „er það meira en við getum tekist á við“.

Gæti orðið næsta Fyre Festival 

Hann segir lögreglu þegar búna að tryggja sér aðstoð 150 lögreglumanna  og 300 sjúkraflutningamanna víða að frá Nevada. Venjulega sjá 26 lögreglumenn um að vakta þetta 27.000 km2 svæði . Þeir sem stelast í óleyfi inn á Area 51 verða handteknir og þurfa að greiða a.m.k. 1.000 dollara sekt.

„Mitt ráð er, ef þið ætlið að koma og sjá Area 51 þá skulið þið horfa á það utan girðinganna,“ sagði Lee. Auk almennra fylkislögreglunnar þá hafa einnig alríkislögreglumenn og starfsmenn fjölda annarra ríkisstofnanna verið virkjaðir til að safna upplýsingum um hvaða mannfjölda megi búast við.

Komi 50.000 manns á staðinn er það tífaldur íbúafjöldi Lincoln-sýslu og munu innviðir Rachel og Hiko ekki duga til ef það gerist. Fáar verslanir og gististaðir eru í bæjunum og heilsugæsla, bensínstöðvar og netaðgangur mun ekki heldur valda fjöldanum.

Í yfirlýsingu á vef Rachel er því spáð að Alienstock geti þróast yfir í  „Fyre Festival 2.0“. Fyre Festival var vel auglýst hátíð sem haldin var á Bahama árið 2017 og þar höfðu hátíðarhaldarar lofað ungmennunum sem þangað komu íburðarmikilli tónlistarhátíð með alls konar kræsingum. Ekk­ert stóðst sem hátíðar­hald­ar­ar höfðu boðað. Flug­ferðum var af­lýst, eng­in ör­ygg­is­gæsla var á staðnum og eina sem unga fólkið fékk að borða var þurrt brauð og kál­blað. Óttast sumir að örlög Alienstock kunni að verða þau sömu.

„Ekkert sem ég get gert til að stoppa það“

Roberts hefur formlega þvegið hendur sínar af Alienstock og segir ástæðuna þá að hann óttist  „mögulegar mannúðarhörmungar“. Það sama hefur fyrrverandi skipuleggjandi hátíðarinnar

Frank DiMaggio einnig gert. Sagði hann í sambandi við  útvarpsstöðina KTNV Las Vegas að það yrði að hætta við hátíðina „áður en hún verði mestu hörmungar sem suðurhluti Nevada hefur upplifað“.

Connie West, eigandi Little A'Le'Inn, segir hins vegar of seint að hætta við. „Það er sama hvað mun gerast, það er ekkert sem ég get gert til að stoppa það,“ sagði hún grátandi við KTNV.

Skipuleggjendur hinnar hátíðarinnar, Storm Area 51 Basecamp, telja sig hins vegar vel geta tekið á móti 5.000 manns. Fari fjöldinn hins vegar upp yfir 10.000 sé ekki séns að innviðirnir geti mætt því og afleiðingarnar geti orðið jafn hörmulegar og á Bahama-hátíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina