Lögreglumaður talinn hafa stolið trúnaðargögnum

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Kanadíska riddaralögreglan greindi frá því í gær að hún hefði handtekið háttsettan lögreglumann vegna gruns um að hann hefði stolið trúnaðargögnum.

Fram kemur í frétt AFP að leyniþjónustumaðurinn, Cameron Ortis, standi frammi fyrir fimm ákæruliðum vegna málsins. Lögreglan telur að Ortis, sem var tekinn höndum á fimmtudaginn, hafi ætlað að koma gögnunum í hendur óviðkomandi aðila.

Ortis var háttsettur innan riddaralögreglunnar og var yfirmaður aðgerða á sviði gagnnjósna. Óttast er að gagnastuldur Ortis kunni að setja rannsókn á fjölda mála í uppnám. Talið er meðal annars hugsanlegt að gögnin hafi farið til kínverskra stjórnvalda.

Haft er eftir Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, í fréttinni að málið sé grafalvarlegt og að yfirvöld séu að taka á því í samræmi við það. Helsti mótherji hans í aðdraganda þingkosninganna í Kanada í haust, Andrew Scheer, leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur hins vegar sagt að málið sýni þá ógn sem Kanada standi frammi fyrir erlendis frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert