Trump staðfestir dauða Hamza bin Laden

Hamza bin Laden, sonur Osama bin Laden.
Hamza bin Laden, sonur Osama bin Laden.

Donald Trump Bandaríkjaforseti staðfesti í dag að Hamza bin Laden, sonur og arftaki Osama bin Laden, stofnanda al-Qaeda, sé látinn. Hann var drepinn í aðgerðum Bandaríkjanna gegn hryðjuverkasamtökum. 

Fyrir rúmum mánuði var greint frá því að Hamza bin Laden væri látinn. Hann hefði verið drepinn á síðustu tveimur árum í aðgerðum sem tengdust Bandaríkjunum. Þetta hafði þó ekki fengist staðfest fyrr en nú. 

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sagði þegar fréttaflutningur af málinu hófst fyrir rúmum mánuði að honum skildist að Hamza a bin Laden væri látinn. Talið er að hann hafi verið um þrítugt. 

Osama bin Laden, faðir Hamza, var ráðinn af dögum árið …
Osama bin Laden, faðir Hamza, var ráðinn af dögum árið 2011. AFP

Yfirlýsing þremur dögum eftir 9/11

Trump staðfesti í dag að Hamza bin Laden hefði verið drepinn, þremur dögum eftir að 9/11 hryðjuverkaárásanna var minnst og einungis viku eftir að Trump tilkynnti að hann hefði undirbúið sérstakan fund með leiðtogum talíbana. Fundurinn varð þó ekki að veruleika.

„Hamza bin Laden, hátt settur liðsmaður al-Qaeda og sonur Osama bin Laden, var drepinn í aðgerðum Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum í ríki Afganistan/Pakistan,“ sagði Trump í stuttri yfirlýsingu frá Hvíta húsinu.

Yfirlýsingin frá Donald Trump Bandaríkjaforseta var nokkuð óvænt.
Yfirlýsingin frá Donald Trump Bandaríkjaforseta var nokkuð óvænt. AFP

„Dauði Hamza bin Laden sviptir ekki einungis al-Qaeda mikilvægum leiðtoga sem hafði táknræna tengingu við föður sinn heldur grefur dauði hans einnig undan starfshæfni hryðjuverkasamtakanna.“

Í yfirlýsingunni kom ekki fram hvenær aðgerðin átti sér stað eða hvort hún hefði átt sér stað í Afganistan eða Pakistan. 

mbl.is