Breski Íhaldsflokkurinn eykur fylgi sitt

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Fylgi breska Íhaldsflokksins hefur aukist samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar þrátt fyrir að gengið hafi á ýmsu hjá ríkisstjórn flokksins að undanförnu og þá einkum í tengslum við fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að fylgi Íhaldsflokksins mælist 37% samkvæmt skoðanakönnuninni sem gerð var af fyrirtækinu Opinium. Hefur fylgið aukist um 2% frá sambærilegri könnun í síðustu viku. Verkamannaflokkurinn mælist hins vegar með 25%, Frjálslyndir demókratar 16% og Brexitflokkurinn með 13%.

Skoðanakönnunin var gerð eftir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sleit breska þinginu á þriðjudaginn og skoskur dómstóll komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að þingslitin hefðu ekki verið lögleg en þeirri niðurstöðu hefur ríkisstjórnin áfrýjað til Hæstaréttar Bretlands. Niðurstaða í málinu er væntanleg.

Meirihluti þeirra sem styðja Íhaldsflokksinns samkvæmt könnuninni greiddu atkvæði með því í þjóðaratkvæðinu 2016 að Bretland segði skilið við Evrópusambandið eða 55%. Þá segjast 19% þeirra sem studdu áður Verkamannaflokkinn og kusu með útgöngu að þeir styðji nú Íhaldsflokkinn. Fram kemur að vísbendingar séu um að afstaða til útgöngunnar ráði frekar í dag afstöðu fólks en hefðbundin flokkapólitík.

mbl.is