Búið að bera kennsl á 44 lík sem fundust í brunni

Loftmynd sem sýnir svæðið þar sem fjöldagröfin fannst nýverið skammt …
Loftmynd sem sýnir svæðið þar sem fjöldagröfin fannst nýverið skammt frá Guadalajara í Jalisco. AFP

Réttarmeinafræðingar í Mexíkó hafa náð að bera kennsl á 44 lík sem fundust grafin ofan í brunni skammt frá borginni Guadalajara í Jalisco-ríki. Líkamsleifunum hafði verið komið fyrir í 119 svörtum pokum.

Líkin fundust fyrr í þessum mánuði eftir að íbúar í nágrenninu fóru að kvarta undan óþef.

Líkin fundust í 119 svörtum pokum.
Líkin fundust í 119 svörtum pokum. AFP

Glæpagengi hafa háð blóðuga baráttu í Jalisco og þetta er í annað sinn á þessu ári sem fjöldagröf finnst í ríkinu. Fram kemur á vef BBC, að líkin hafi verið sundirlimuð og þurftu yfirvöld að setja bútana saman til að hægt væri að bera kennsl á líkin. Enn eru þó margir líkamshlutar sem ekki hefur náðst að bera kennsl á.

Samtök á svæðinu sem vinna við það að finna týnda einstaklinga hafa skorað á stjórnvöld að senda fleiri sérfræðinga á vettvang til að leggja verkefninu lið. Þau segja að réttarmeinafræðingarnir á staðnum séu að drukkna í verkefnum og búi þar að auki ekki yfir viðunandi kunnáttu til að ljúka verkinu.

mbl.is