Gullklósetti stolið af æskuheimili Churchills

Gullklósettið á sýningu í Guggenheim-safninu í New York árið 2016. …
Gullklósettið á sýningu í Guggenheim-safninu í New York árið 2016. 100.000 manns fengu þar að reyna gripinn. AFP

Átján karata gullklósetti var stolið úr Blenheim-höll í námunda við Oxford á Englandi á laugardag. Klósettið var smíðað af ítalska listamanninum Maurizio Cattelan og er metið á um eina milljón punda, 155 milljónir króna. Þrátt fyrir að vera listaverk var klósettið engu að síður fullkomlega nothæft til hefðbundinna erindagjörða, allt þar til glæpagengi braust inn í höllina á laugardag og tók á brott.

Töluverðar vatnsskemmdir urðu í höllinni, enda sáu glæpamennirnir ekki sóma sinn í að ganga almennilega frá blöndunartækjum. 68 ára karlmaður hefur verið handtekinn vegna málsins, en lögregla telur að fleiri hafi verið viðrinir glæpinn og notað til þess minnst tvö ökutæki.

Blenheim-höllin er óðal tólfta hertogans af Marlborough, Charles James Spencer-Churchill, í hirð bresku konungsfjölskyldunnar, en hann er fjarskyldur frændi Winstons Churchills, fyrrverandi forsætisráðherra, og Díönu prinsessu. Winston Churchill fæddist einmitt í umræddri höll. Gullklósettið er þó aðeins þriggja ára gamalt og gerðist forsætisráðherrann því aldrei svo frægur að ganga þar örna sinna, en það gerðu 100.000 manns er það var á sýningu í Guggenheim-safninu í New York í heilt ár.

Töluvert hafði verið ritað um gullklósettið í fjölmiðlum, en í síðasta mánuði sagði Edward Spencer-Churchill, bróðir hertogans, að hann hefði litlar áhyggjur af því þótt klósettið væri ekki sérstaklega vaktað.

„Í fyrsta lagi er klósettið í notkun svo mögulegir þjófar hafa ekki hugmynd um hver notaði það síðast eða hvað þeir borðuðu. Svo nei, ég ætla mér ekki að gæta þess sérstaklega,“ sagði hann aðspurður í samtali við breska blaðið Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert