Kaus að ganga til liðs við Frjálslynda demókrata

Breski þingmaðurinn Sam Gyimah.
Breski þingmaðurinn Sam Gyimah. Ljósmynd/Wikipedia.org

Tilkynnt var í gær að þingmaðurinn Sam Gyimah hefði gengið til liðs við Frjálslynda demókrata en hann var kosinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn.

21 þingmaður Íhaldsflokksins tók höndum saman við stjórnarandstöðuna á dögunum til þess að koma í veg fyrir að af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu gæti orðið án útgöngusamnings og var Gyimah einn þeirra. Í kjölfarið var þeim vísað úr flokknum. Frjálslyndir demókratar hafa þá stefnu að koma í veg fyrir útgönguna.

Fram kemur í frétt AFP að margir hafi áður litið á Gyimah sem vonarstjörnu innan Íhaldsflokksins. Hann var ráðherra í ríkisstjórn Theresu May en sagði sig úr stjórninni á síðasta ári vegna stefnu May við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Þá hefur Gyimah verið mikill talsmaður þess að haldin verði ný þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um það hvort Bretland eigi að vera í Evrópusambandinu en meirihluti kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæði sumarið 2016 að ganga úr sambandinu.

mbl.is