Mestu flóð í 31 ár

Steina Fjóla Jónsdóttir.
Steina Fjóla Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ástandið er svakalegt. Herinn er á svæðinu og þyrlur hafa þurft að flytja fólk úr bæjum í nágrenninu.“ Þetta segir Steina Fjóla Jónsdóttir, íbúi í Algorfa við Costa Blanca-strandlengjuna á Spáni, en úrhellisrigning hefur leikið svæðið grátt undanfarna daga og hefur áin Segura, sem rennur í gegnum bæinn, flætt yfir bakka sína og stíflugarðar brostið.

Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín og minnst sex látið lífið á svæðinu, þar á meðal í Orihuela, stærstu borg svæðisins sem er aðeins í tæplega 20 kílómetra fjarlægð frá Algorfa, en Algorfa stendur ofar og hefur ekki farið jafnilla út úr flóðunum og nágrannabæirnir.

Mikil röskun hefur orðið á daglegu lífi, einkum í nálægum bæjum, og hefur skólahald til að mynda legið niðri síðan á fimmtudag í bænum Almoradí þar sem börn Steinu stunda nám. Úrhellið hófst á fimmtudag og mældist rigning í þorpinu Gaianes um 490 millimetrar frá fimmtudegi til laugardags, þar af 300 millimetrar á fyrsta sólarhringnum.

Til samanburðar féll úrkomumet í Reykjavík síðasta haust er 83 millimetra úrkoma mældist á tveimur sólarhingum.

Það getur verið varasamt að ætla að keyra í gegnum …
Það getur verið varasamt að ætla að keyra í gegnum vatnsflauminn. Nokkrir hafa látið lífið er straumurinn tekur með sér bílinn. AFP

Steinunn hefur búið á Spáni í 16 ár. „Ég er eiginlega orðin Spánverji,“ segir hún enda altalandi á spænsku. Hún starfar sem fasteignasali á fasteignasölunni Medland, og hefur umsjón með sölu eigna til Íslendinga.

Hún segir vatnavexti í ánni er árvissan atburð að hausti. Er hitinn frá Miðjarðarhafi mætir köldum skýjum myndast svakalegt regn sem veldur því að áin getur flætt yfir bakka sína. Þetta kalla Spánverjar kalda dropann (Gota Fría). Flóðið nú er þó hið stærsta í 31 ár. Síðan þá hefur mikið verið byggt á svæðinu og liggja hús og vegir nær árbakkanum en áður. Á vatnsflaumurinn því greiða leið um malbikaðar götur sem skýrir hví tjónið er jafnmikið nú og raun ber vitni. Steina segir ljóst að stjórnvöld verði að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir að hörmungarnar geti endurtekið sig en framundan er gríðarleg vinna við að meta tjón og lagfæra skemmdir.

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, heimsótti Orihuela í gær og ferðaðist …
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, heimsótti Orihuela í gær og ferðaðist með herþyrlu. AFP

Rigningin er nú yfirstaðin og segir Steina því ekki hægt að segja að hætta steðji enn að. Þó hefur þurft að hleypa vatni úr uppistöðulónum, sem eiga að halda ánni í skefjum, til að varna því að þau bresti og við það eykst enn í ánni. „Þetta er ákveðin verkfræði, því ekki má láta varnargarða lónanna bresta,“ segir Steinunn og bætir við að halda mætti almennum borgurum betur upplýstum um þær aðgerðir. Í heild sé upplýsingaflæði þó gott. 

mbl.is