Stolnu trúnaðargögnin tengd Rússlandi

Kanadíska þinghúsið í Ottawa, höfuðborg Kanada. Ortis var handtekinn í …
Kanadíska þinghúsið í Ottawa, höfuðborg Kanada. Ortis var handtekinn í borginni á fimmtudag. AFP

Kanadíski leyniþjónustumaðurinn Cameron Ortis sem var handtekinn nýverið vegna gruns um þjófnað á trúnaðargögnum hafði umsjón með rannsókn sem laut að peningaþvætti innan rússneskra sjóða.

Kanadískir miðlar segja að handtaka Ortis sé tengd umfangsmiklu spillingarmáli sem lögfræðingurinn Sergei Magnitsky svipti fyrst hulunni af. Hann kom opinberlega fram með ítarlegar upplýsingar um 230 milljón bandarískra dala fjársvik á vegum rússneska innanríkisráðuneytisins og embættismanna sem störfuðu hjá rússneska skattinum.

Fjársvik upp á 14 milljónir dala 

Ort­is var hátt ­sett­ur inn­an ridd­ara­lög­regl­unn­ar og var yf­ir­maður aðgerða á sviði gagnnjósna. Hann sá um að rannsaka hvort hluta peninganna væri streymt í gegnum Kanada allt fram í ágúst síðastliðinn. Ortis ætlaði sér að hitta teymi lögfræðinga í annað sinn og staðhæfa að meira en 14 milljónir dala rússnesku fjársvikana tengdust Kanada.

Meint aðild Ortis að þjófnaði á trúnaðargögnum varð ljós eftir að William Browder, breskur fjármálamaður og fyrrverandi fjárfestir í Rússlandi sem Magnitsky starfaði fyrir, lagði inn kvörtun vegna Ortis til riddaralögreglunnar árið 2016. Magnitsky lést í varðhaldi eftir 11 mánaða fangelsisvist árið 2009.

Ætlunin að hafa samskipti við ranga aðila

Ortis var handtekinn í höfuðborg Kanada, Ottawa, síðastliðinn fimmtudag. Hann stendur nú frammi fyrir fimm ákærum og mun koma fyrir rétt næstkomandi föstudag.

„Ortis er sakaður um að hafa aflað, geymt og unnið úr viðkvæmum upplýsingum. Við teljum að ætlun hans hafi verið að komast í kynni við fólk sem hann ætti ekki að eiga samskipti við,“ sagði saksóknarinn John MacFarlane um málið.

Kanadíska riddaralögreglan óttast að Ortis hafi stolið miklu af gögnum sem gætu komið óteljandi rannsóknum í uppnám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert