Ekki tímabært að heimsækja Kim

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að nú sé líklega ekki rétti tímapunkturinn fyrir hann til að heimsækja Norður-Kóreu, en hann sér fyrir sér að gera það einhvern tímann í framtíðinni.

„Ég held að við séum ekki reiðubúin til þess,“ sagði Trump við fréttamenn sem spurðu hann út í hvort hann hygðist funda með Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu. „Ég hugsa að við þurfum að ná lengra fyrst,“ sagði Trump sem kvað samband ríkjanna tveggja gott. 

„Einn daginn myndi ég vilja heimsækja Norður-Kóreu, einhvern tímann í framtíðinni,“ sagði hann. „Og ég er handviss um að hann [Kim Jong Un] myndi elska að koma til Bandaríkjanna.

Tilefni spurninga fréttamannanna var beiðni Kims um að Trump kæmi í heimsókn, en erindið var sent í síðasta mánuði, en hann setti einnig fram þessa ósk á fundi leiðtoganna á „hlutlausa svæðinu“ á landamærum Norður- og Suður-Kóreu nýverið.

mbl.is