Mjótt á munum hjá Netanyahu og Gantz

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael og Benny Gantz, leiðtogi Bláhvítu hreyfingarinnar.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael og Benny Gantz, leiðtogi Bláhvítu hreyfingarinnar. AFP

Mjótt er á munum hjá Likud, flokki Benjamins Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Blá­hvítu hreyf­ing­arinnar, und­ir for­ystu aðaland­stæðings Net­anya­hu, Benny Gantz, fyrr­ver­andi her­for­ingja, ef marka má fyrstu útgönguspár fyrir þingkosningarnar sem fara fram þar í landi í dag. 

Útgönguspár sem birtar voru eftir að kjörstöðum var lokað sýna að Likud hlýtur 31 þingsæti en Bláhvíta hreyfingin 34. 120 þingsæti eru á ísraelska þinginu. 

Þetta er í annað skipti á fimm mánuðum sem Ísraelar kjósa til þings en Net­anya­hu mistókst að mynda stjórn­ar­meiri­hluta í maí. 

Net­anya­hu kaus af þeim sök­um að boða til annarra kosn­inga, en slíkt er for­dæma­laust í Ísra­el. Síðustu kosn­ing­ar voru í apríl og sigruðu Net­anya­hu og hægris­innaðir banda­menn hans í þeim.

Netanyahu hét því fyrir kosningarnar að nái hann end­ur­kjöri muni Ísra­el­ar inn­lima Jórd­andal­inn og norður­hluta Dauðahafs­ins. Kosningaloforðið var strax harðlega gagn­rýnt af stjórn­völd­um í Jórdan­íu, Tyrklandi og Sádi-Ar­ab­íu. Þá for­dæmdi banda­lag ar­ab­a­ríkja jafn­framt yf­ir­lýs­ing­una og sagði hana „hættu­lega þróun“ og „ágengni“.

Marg­ir kjós­end­ur telja að tími sé kom­inn á breyt­ing­ar en eng­inn hef­ur setið jafn lengi á stól for­sæt­is­ráðherra Ísra­el og Net­anya­hu, sem hefur ít­rekað verið sakaður um spill­ingu.

mbl.is