Segja skotstað flauganna vera fundinn

Gervihnattamynd af þeim svæðum olíuvinnslunnar sem varð fyrir skemmdum í …
Gervihnattamynd af þeim svæðum olíuvinnslunnar sem varð fyrir skemmdum í árásinni. AFP

Bandarísk stjórnvöld ræða nú um að ganga á umfangsmiklar olíubirgðir ríkisins eftir að árás var gerð á olíuvinnslustöðvar í Sádi-Arabíu á laugardag. Matsfyrirtækið S&P Platts greindi frá því í dag að búast mætti við að olíuframleiðsla Sádi-Araba yrði áfram keyrð á hálfum hraða næsta mánuðinn.

Uppreisnarmenn húta ítrekuðu í dag að þeir bæru ábyrð á árásunum á olíuvinnslustöðvarnar, en bandarísk stjórnvöld hafa sagt Írana bera ábyrgð á þeim og fullyrtu í dag að fjarstýrðar eldflaugar hefðu verið notaðar til verksins. Segir BBC bandaríska embættismenn fullyrða að búið sé að finna þann stað í Íran sem flaugunum hafi verið skotið frá.

Mohammed Abdulsalam, talsmaður húta, sagði hins vegar í dag að uppreisnarmenn hótuðu því að halda áfram að beina árásum sínum gegn olíuvinnslum Sádi-Araba. Olía sem verslunarvara væri ekki dýrmætari en blóð Jemena og árásunum yrði haldið áfram þar til Sádi-Arabía léti af „árásum og umsátri“ um Jemen.

Strax í gær eftir að olíuverði hækkaði í kjölfar árásanna tjáði Donald Trump Bandaríkjaforseti sig um málið á Twitter og sagði olíubirgðir Bandaríkjanna svo miklar að þær gætu haldið mörkuðum „vel birgðum“.

Geymdar í saltnámum neðanjarðar

Vís­ar hann þar til þess að yfir 640 millj­ón­ir ol­íu­t­unna eru geymd­ar í salt­nám­um neðanj­arðar í Texas og Louisi­ana. Olía hef­ur verið geymd þar allt frá því á átt­unda ára­tug síðustu ald­ar og nema birgðirn­ar inn­flutn­ingi á bens­íni í 90 daga. er hvergi í heim­in­um að finna jafn mikl­ar olíu- og eldsneyt­is­birgðir. 

BBC segir það hafa verið bandaríska stjórnmálamenn sem fyrst komu með hugmyndina að varabirgðunum og var það á áttunda áratug síðustu aldar, eftir að olíusölubann ríkja í Mið-Austurlöndum olli því að verð á olíu um heim allan rauk upp á við.

Gerðist það í kjölfar þess að samtök olíuríkja fyrir botni Miðjarðarhafs, m.a. Íran, Írak, Kúveit, Qatar og Sádi-Arabía neituðu að selja olíu til Bandaríkjanna á vegna stuðnings ríkisins við Ísrael í Ísraelsstríðinu árið 1973.

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir bandarísk stjórnvöld geta haldið mörkuðum vel …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir bandarísk stjórnvöld geta haldið mörkuðum vel birgðum af olíu. AFP

Stríðið sjálft varði ekki í nema þrjár vikur, en viðskiptabannið sem einnig var lagt á önnur ríki varði fram í mars árið eftir, og olli því að olíuverð fjórfaldaðist um heim allan. Hækkaði verð á tunnu af hráolíu úr þremur dollurum í 12 dollara á tímabilinu og eru myndir af bílaröðum við bensíndælur mörgum minnisstæðar frá þessum tíma.

Það var svo árið 1975 sem Bandaríkjaþing samþykkti lög sem kveða á um varabirgðir olíu sem Bandaríkjaforseti getur einungis heimilað notkun á ef við blasir „alvarleg truflun á orkubirgðum“.

Ódýrara og öruggara en að geyma olíuna ofanjarðar

BBC segir olíuna nú vera geymda á fjórum stöðum. Í nágrenni Freeport og Winnie í Texas, við Charles-stöðuvatnið og í Baton Rouge í Louisiana.

Á öllum fjórum stöðum er að finna manngerða neðanjarðar salthella, sem eru allt að kílómetra langir. Slíkir geymslustaðir eru sagðir mun öruggari og ódýrari en að geyma olíuna í geymslutönkum ofanjarðar. Aukinheldur kemur efnasamsetning saltsins og jarðfræðilegur þrýstingur í veg fyrir að olían leki út.

Stærst geymslusvæðanna er Bryan Mound í nágrenni Freeport sem getur geymt allt að 254 milljónir tunna af olíu.

Síðasta föstudag voru 644,8 milljónir olíutunna á geymslustöðunum fjórum. Samkvæmt bandaríska orkumálráðuneytinu nota Bandaríkjamenn um 20,5 milljónir tunna af olíu dag hvern og ættu birgðirnar því að duga Bandaríkjunum í 31 dag.

Þar sem olíubirgðirnar innihalda hins vegar eingöngu hráolíu sem þyrfti að hreinsa áður en hægt væri að nota hana sem eldsneyti fyrir bíla, skip og flugvélar tæki tíma að koma henni á markað. Þá er staðsetning geymslustaðanna slík að ekki er hægt að flytja nema lítið magn þaðan í einu og segir BBC það því taka um tvær vikur áður en olían gæti verið komin á markað.

Nýttar í Persaflóastríðinu og í fellibylnum Katrínu

Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, sagði hins vegar í samtali við CNBC sjónvarpsstöðina í gær að það væri „fullsnemmt“ að fara að ræða notkun á varabirgðunum.

Varabirgðirnar voru síðast nýttar árið 2011 í kjölfar truflana sem urðu á olíuflutningum vegna arabíska vorsins.

Bandarísk stjórnvöld hafa auk þess nokkrum sinnum selt töluverðan hluta af birgðunum. Þannig heimilaði George H.W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti, sölu á olíunni í Persaflóastríðinu og sonur hans George W. Bush heimilaði sölu á 11 milljónum tunna eftir að fellibylurinn Katrína fór yfir New Orleans. Þá heimilaði Bill Clinton, þáverandi forseti, sölu á 28 milljónum tunna árið 1997 til að draga úr fjárlagahalla ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina