Skaut þær fyrir framan börnin

Spænska lögreglan - myndin er úr safni AFP.
Spænska lögreglan - myndin er úr safni AFP. AFP

Maður er í haldi spænsku lögreglunnar eftir að hafa játað að hafa skotið fyrrverandi eiginkonu sína, tengdamóður og mágkonu fyrir framan börnin þeirra tvö. 

Morðin voru framin í gærmorgun er móðirin var að fara með börnin, fjögurra og sjö ára, í skólann. Maðurinn hringdi í lögregluna og lét vita af gjörðum sínum eftir að hafa flúið af vettvangi í Valga í norðvesturhluta Spánar.

Samkvæmt frétt BBC gaf hann sig síðan fram við lögreglu en aldrei hafa borist tilkynningar um heimilisofbeldi af hálfu mannsins. Hjónin skildu í fyrra. 

Spænskir fjölmiðlar segja að maðurinn, José Luis Abet Lafuente, hafi fyrir nokkrum dögum sent fyrrverandi eiginkonu sinni skilaboð þar sem hann sakaði hana um að koma í veg fyrir að hann fengi að hitta börnin tvö. 

„Þú lætur ekki nægja að fara fram á skilnað heldur fæ ég ekki að hitta börnin,“ á hann að hafa skrifað á Facebook, samkvæmt frétt El Mundo.

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, segir að þetta sé hryllilegur harmleikur tengdur kynbundnu ofbeldi. „Við hættum ekki fyrr en við stöðvum slátrun kvenna,“ skrifar hann á Twitter.

Samkvæmt BBC hafði konan, sem var 39 ára gömul, farið með börnin út í bíl fyrir utan heimili þeirra í Valga. Svo virðist sem hún hafi verið nýlögð af stað þegar hann stöðvaði för hennar vopnaður skotvopni. Hún hringdi í fjölskyldumeðlimi og bað um hjálp en aðeins nokkrum mínútum síðar var hún látin. Hafði hann skotið hana fyrir framan börn þeirra. Þegar fyrrverandi mágkona hans og tengdamóðir komu á vettvang skömmu síðar skaut hann þær einnig til bana.

mbl.is