185 handteknir vegna gróðurelda í Indónesíu

Gróðureldar loga í Kampar á Súmötru. Eldarnir eru flestir kveiktir …
Gróðureldar loga í Kampar á Súmötru. Eldarnir eru flestir kveiktir af mannavöldum til að auka við ræktarland. AFP

Yfirvöld í Indónesíu hafa handtekið á annað hundrað manna sem grunaðir eru um aðild að miklum gróðureldum sem nú loga í skógum landsins. Hafa þúsundir hektara lands sem áður var vistfræðilega auðugt þegar brunnið og liggur nú þykkur reykur víða yfir.

CNN sjónvarpsstöðin hefur eftir Dedi Prasetyo, talsmanni indónesísku lögreglunnar, að 185 manns hafi nú verið handteknir í sex héruðum og þá séu fjögur fyrirtæki einnig til rannsóknar vegna eldanna. Bætti hann við að 99% gróðureldanna væru af mannavöldum.

Eldarnir og reykurinn sem þeim fylgja eru til komnir af sömu ástæðum og gróðureldarnir sem logaði hafa í Amazon-regnskógunum — verið er að ryðja skóglendi og breyta því í ræktarland.

Það sem af er þessu ári hafa þegar brunnið 328.000 hektarar lands, hundruð manna hafa verið flutt á brott og yfir 9.000 manna hjálparlið hefur verið sent á vettvang til að berjast við eldana að sögn almannavarna Indónesíu.

Mikil loftmengun sést hér liggja yfir indónesísku borginni Palembang vegna …
Mikil loftmengun sést hér liggja yfir indónesísku borginni Palembang vegna eldanna. AFP

CNN segir gróðureldana hafa haft áhrif á líf fólks víða og þannig hafi íbúar Singapore og Malasíu fundið fyrir þykkum reyk og búið við slæm loftgæði allra vikuna vegna eldanna.

Hefur rúmlega 600 skólum í Malasíu verið lokað vegna loftmengunar að sögn Singapore fjölmiðilsins Straits Times og þá hefur skólum á eyjum Súmötru og Borneó einnig verið lokað þar sem loftgæði eru talin „hættuleg“ á nokkrum svæðum vegna reyksins.

Stjórnvöld á svæðinu leita nú allra leiða til að finna lausn á vandanum og greindi Joko Widodo, forseti Indónesíu, frá því í gær að 52 flugvélar með vatnssleppibúnað væru nú nýttar til að ráða niðurlögum eldanna. Þá hefði einnig verið fjölgað um 5.500 manns í hjálparsveitum sem reyna að slökkva eldana i Riau héraðinu á Súmötru sem hefur orðið sérlega illa úti.

Sagði Widodo jafnframt að forvarnir væru besta leiðin til að stöðva reykjarmengunina og hét því að hart yrði tekið á brennuvörgum.

Yfirvöld í bæði Malasíu og Indónesíu eru þá að undirbúa að framkalla regn með því að búa til regnský í von um að það aðstoði við hjálparstarfið.

Múslimar í indónesísku borginni Palembang eru með grímur fyrir vitum …
Múslimar í indónesísku borginni Palembang eru með grímur fyrir vitum sér við bænahald vegna reyksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert