Bjargað eftir tvo daga

Neil Parker.
Neil Parker. AFP

Ástralskur göngumaður sem slasaðist þegar hann féll sex metra beið í tvo daga eftir aðstoð.

Neil Parker, sem er 54 ára, var einn á göngu í skóglendi skammt frá Brisbane á sunnudag þegar hann rann og féll í vatn með þeim afleiðingum að hann hlaut opið beinbrot á fótlegg og úlnliðsbrotnaði. Jafnframt týndi hann farsíma sínum og taldi einu leiðina vera þá að reyna að skríða af stað í þeirri von að vera bjargað.

Í morgun sagði hann fréttamönnum frá því hvernig hann hefði skriðið áfram með herkjum og það tók hann tvo daga að skríða þrjá kílómetra. 

Parker hafði ætlað sér að fara í þriggja tíma gönguferð á Nebo-fjall þegar hann missti fótanna og hafnaði í vatninu. Parker er þrautþjálfaður göngumaður og var með sjúkratösku í farangrinum þannig að hann gat notað göngustafina sem spelku sem hann festi við fótinn með plástrum. Hann var einnig með verkjalyf og vatn en nánast ekkert að borða annað en hnetur og súkkulaði. 

Ég varð að lyfta fætinum og fætur eru afar þungir þegar þeir eru óstarfhæfir. Ég var að reyna að lyfta fætinum yfir urð og grjót og síðan að lyfta sjálfum mér með því að nota olnboga og handleggi, segir Parker en hann er á sjúkrahúsi í Brisbane. Hann segir að tilhugsunin um fjölskylduna hafi gefið honum andlegan styrk til þess að takast á við þessa þrekraun.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert