Grunur um njósnir hjá Airbus

Tuttugu starfsmönnum Airbus var sagt upp eftir að grunur vaknaði …
Tuttugu starfsmönnum Airbus var sagt upp eftir að grunur vaknaði um njósnir í fyrirtækinu. AFP

Yfirvöld í Þýskalandi hafa hafið rannsókn vegna gruns um njósnir af hálfu starfsmanna flugvélaframleiðandans Airbus í tengslum við tvö hernaðartengd verkefni. Grunsemdir vöknuðu fyrir nokkrum vikum og gerði fyrirtækið yfirvöldum í München viðvart. 

„Sumir starfsmanna okkar höfðu undir höndum skjöl sem þeir áttu ekki að hafa,“ sagði heimildarmaður þýska dagblaðsins Bild, en starfsmennirnir sem um ræðir störfuðu í deild sem hefur skammstöfunina CIS (Communications, Intelligence and Security), þar sem unnið er að verkefnum er varða netöryggi og skylda starfsemi.

Fram kom í Bild að 20 starfsmönnum hafi umsvifalaust verið sagt upp störfum og hald hafi verið lagt á skjöl þeirra og tölvur. Þýski herinn hefur beitt einn starfsmann sinn agaviðurlögum.

Fram kemur að starfsmennirnir hafi haft undir höndum gögn sem hafi varðað leynileg skjöl þýska hersins er varði samskiptakerfi auk fleiri verkefna.

Airbus hefur hrundið af stað „innri rannsókn með hjálp utanaðkomandi lögfræðifyrirtækis“ og hefur sýnt yfirvöldum algjöran samstarfsvilja til að leysa málið, að því er fram kom í tilkynningu flugleiðaframleiðandans vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert