Kveikt í tugum bíla í bílastæðahúsi í Gautaborg

Sænskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni.
Sænskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. AFP

Kveikt var í tugum bíla í bílastæðahúsi í Askim-hverfinu í Gautaborg seint í gærkvöldi. Að sögn lögreglu brunnu 12 bílar til kaldra kola og 14 bílar til viðbótar eru skemmdir eftir brunann. Þá eyðilagðist einnig þak bílastæðahússins í eldinum.

Lögreglu barst tilkynning um eldinn kl. 23.15 í gærkvöldi og hafði sökkviliði tekist að ná stjórn á eldinum skömmu eftir miðnætti. Tæknideild lögreglu er nú að störfum á vettvangi og segir sænska ríkisútvarpið SVT málið vera rannsakað sem íkveikja.

„Við auglýsum nú eftir vitnum og eigum svo eftir að sjá til hverju fram vindur,“ sagði Andreas Odén, varðstjóri hjá lögreglunni, í samtali við SVT. „Við teljum þetta hafa verið skipulagt en höfum engan undir grun enn sem komið er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert