Lögmaður skotinn til bana í Amsterdam

Lögregla á vettvangi í Amsterdam í morgun.
Lögregla á vettvangi í Amsterdam í morgun. AFP

Hollenskur lögmaður vitnis í máli gegn glæpagengi var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Amsterdam í dag. Lögregla segir glæpinn einstaklega hrottafenginn.

Derk Wiersum var 44 ára lögmaður vitnis gegn glæpagengi sem sakað er um fimm morð á árunum 2015 til 2017. Samkvæmt frétt BBC sást maður í hettupeysu flýja af vettvangi í dag.

Lögreglustjórinn Erik Akerboom sagði að með þessu hrottafengna morði væri farið yfir mörk sem ekki hefði verið farið yfir áður; fólk sem væri einfaldlega að vinna vinnuna sína væri ekki öruggt.

Ferd Grapperhaus dómsmálaráðherra sagði morðið „árás á réttarríkið“.

Lögregla leitar að ungum manni sem klæðist dökkum fötum og hettupeysu. Hann sást flýja af vettvangi klukkan 7.30 í morgun. Annað tveggja barna Wiersum var heima þegar hann var myrtur.

„Þetta eru hræðilegar fréttir,“ sagði lögmaðurinn Jilli Roelse.

Wiersum hafði verið lögmaður manns sem var á vitnalista ákæruvaldsins en hafði áður verið í glæpagenginu. Hollenskir fjölmiðlar kalla manninn Nabil B en bróðir hans var skotinn til bana í fyrra.

Mennirnir sem taldir eru höfuðpaurar í morðunum fimm eru af marokkóskum uppruna; Ridouan Taghi og Said Razzouki. Eru þeir á lista Europol yfir eftirlýsta glæpamenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert