Seðlabankinn lækkar vexti aftur

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í dag þar sem …
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í dag þar sem tilkynnt var um vaxtalækkun. AFP

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur lækkað viðmiðunarvexti um 0,25 prósentustig. Vaxtalækkunin er önnur lækkunin á þessu ári, en í lok júlí lækkaði bankinn einnig vexti. Var það í fyrsta sinn frá efnahagshruni árið 2008. 

Í frétt New York Times segir að sérfræðingar bankans búist við aðeins einni lækkun í viðbót á þessu ári, miðað við efnahagsspár sem voru birtar í kjölfar fundar þar sem ákvörðunin var kynnt. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Jerome Powell, sagði að efnahagur Bandaríkjanna væri áfram sterkur og atvinnuleysi væri lítið, en áhætta steðjaði að þessum jákvæðu aðstæðum. Veiktist efnahagurinn, mætti vænta enn frekari vaxtalækkana. 

Forsetinn ekki par sáttur

„Augu okkar eru opin og við fylgjumst með ástandinu,“ sagði Powell sem sagði að vaxtalækkanir til að halda aftur af þenslu tækju enda „þegar við teljum okkur hafa gert nóg“.

„Það gæti verið að á einhverjum tímapunkti, þegar efnahagurinn veikist, að við þurfum að grípa til harkalegri lækkana. Við vitum það ekki á þessum tímapunkti,“ sagði hann.

Donald Trump Bandaríkjaforseti var ekki par sáttur með ákvörðunina, en hann hefur þrýst á að vextir verði lækkaðir niður að núlli og jafnvel niður fyrir núll. „Jay Powell og seðlabankanum mistekst enn á ný,“ skrifaði hann í færslu á Twitter, skömmu eftir að tilkynnt var um vaxtalækkunina. „Enginn kjarkur, engin skynsemi, engin sýn. Hræðilegur í samskiptum!“ skrifaði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert