Vísa kvörtunum yfir túrauglýsingu á bug

Auglýsingin sýnir meðal annars blettótt nærföt og blóð á fótlegg …
Auglýsingin sýnir meðal annars blettótt nærföt og blóð á fótlegg konu í sturtu. Úr auglýsingu Libra

Yfirvöldum í Ástralíu bárust yfir 600 kvartanir vegna auglýsingar frá dömubindaframleiðandanum Libra þar sem sjá mátti túrblóð í fyrsta sinn í ástralskri auglýsingu.

Neytendastofu Ástralíu hafa ekki borist fleiri kvartanir vegna einnar og sömu auglýsingarinnar það sem af er ári, en þeim sem kvörtuðu þykir auglýsingin óviðeigandi. Neytendastofan hefur hins vegar vísað kvörtununum frá og segir sýningu túrblóðs ekki fara gegn reglugerðum.

Þvert á móti fagnaði stofan því að skrefið hafi loks verið stigið og að auglýsingin ýtti undir jafnrétti og drægi úr þeirri leynd og skömm sem oft tengdist tíðablæðingum.

Auglýsingin sýnir meðal annars blettótt nærföt og blóð á fótlegg konu í sturtu. Í kvörtununum var auglýsingin sögð móðgandi, óviðeigandi og ógeðsleg.

Í úrskurði neytendastofu vegna kvartananna segir að þrátt fyrir að sumir áhorfendur myndu síður kjósa að sjá líkamsvessa á sjónvarpsskjáum sínum bryti það ekki í bága við siðferðisreglugerðir. Þá þótti einhverjum um of að auglýsingin væri sýnd á kjörtíma (e. prime time) sjónvarpsáhorfs og þegar börn gætu séð til.

„Það er ekkert neikvætt orðbragð eða myndefni í auglýsingunni sem gefur í skyn að konur ættu að skammast sín fyrir tíðablæðingar eða að kona sem sé á blæðingum sé á einhvern hátt minni manneskja,“ segir í úrskurði neytendastofu.

mbl.is