Sýknaðir vegna Fukushima-slyssins

Tsunehisa Katsumata, Ichiro Takekuro og Sakae Muto eru þeir einu …
Tsunehisa Katsumata, Ichiro Takekuro og Sakae Muto eru þeir einu sem ákærðir voru vegna kjarnorkuslyssins í Fukushima árið 2011 og því liggur ljóst fyrir að enginn verður sakfelldur fyrir glæpsamlegt atferli vegna slyssins. AFP

Þrír yfirmenn Tokyo Electric Power (Tepco) sem rak kjarnorkuverið í Fukushima í Japan hafa verið sýknaðir af öllum ákærum vegna kjarnorkuslyssins sem þar varð fyrir átta árum. 

Mannskæður jarðskjálfti og öfl­ug fljóðbylgja í mars 2011 leiddu til kjarn­orku­slyss í kjarn­orku­ver­inu í Fukus­hima. Um 18.500 manns lét­ust í ham­förun­um eða er enn saknað. 

Þremenningarnir eru þeir einu sem ákærðir voru í málinu og því liggur ljóst fyrir að enginn verður sakfelldur fyrir glæpsamlegt atferli vegna slyssins, sem er það alvarlegasta sinnar tegundar frá slysinu í Chernobyl árið 1986. 

Tsunehisa Katsumata, fyrrverandi stjórnarmaður fyrirtækisins, og varaforstjórarnir Sakae Muto og Ichiro Takekuro, sem eru á sjötugs- og áttræðisaldri, voru ákærðir fyrir glæpsamlega vanrækslu sem leiddi til dauða 44 manns þrátt fyrir að opinberlega hafi engin dauðsföll verið skráð sem bein afleiðing slyssins. Dauðsföllin sem vísað er til í ákærunni ná til þeirra sem létust á sjúkrahúsi í kjölfar kjarnorkuslyssins eftir að hafa verið fluttir með hraði í kjölfar þess að kjarnaofnar orkuversins bráðnuðu og geislavirk efni láku út. 

Áttu þeir yfir höfði sér fimm ára fangelsi, yrðu þeir fundnir sekir.

Aðgerðasinna komu saman fyrir utan héraðsdómstól í Tókýó í morgun …
Aðgerðasinna komu saman fyrir utan héraðsdómstól í Tókýó í morgun þegar dómur var kveðinn upp í máli þriggja fyrrverandi yfirmanna Tepco sem rak kjarnorkuverið í Fukushima. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert