15 stunda vinnudagar hjá útlendingastofnun

Horft yfir til Bandaríkjanna í gegnum girðingu á landamærunum í …
Horft yfir til Bandaríkjanna í gegnum girðingu á landamærunum í Tijuana í Mexíkó. AFP

Innflytjendastefna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur valdið miklu álagi hjá mexíkósku útlendingastofnuninni. Stofnunin er smá í sniðum og hefur aukið álag af harðlínustefnu Trumps í innflytjendamálum valdið því að starfsmenn vinna nú 15 stunda vinnudag. Þeir óttast nú að álagið eigi eftir aukast enn meira nú þegar hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað stjórn Trumps í vil og bann verið lagt við afgreiðslu hælisbeiðna á landamærunum.

Í borginni Taphachula á landamærum Mexíkó og Gvatemala segist Hondúrasbúinn og leigubílstjórinn Danny Perez hafa flúið glæpagengi í heimalandi sínu með þann draum í huga að setjast að í Bandaríkjunum. Innflytjendastefna Trumps gerir það hins vegar að verkum að sá draumur virðist nú fjarlægur og er Perez nú að reyna að skapa sér nýtt líf í Mexíkó.

Hann getur hins vegar ekki unnið á meðan hælisumsókn hans er í vinnu og á engan pening eftir til að leigja sér herbergi. „Þetta er ekki auðvelt,“ segir Perez sem sótti um hæli í síðustu viku. Segist hann í samtali við Reuters hafa áhyggjur af að hann muni „bilast“.

Eins og er verður hann hins vegar að sætta sig við að eyða kvöldunum á gangstéttinni framan við innflytjendaskrifstofuna í Tapachula. Þar upplifir hann sig nokkuð öruggan innan um stöðugan straum innflytjenda á meðan hann reynir að ná sér í kríu undir birtu götuljósanna.

Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti síðasta miðvikudag stefnu bandarískra stjórnvalda sem kveður á um að þeir hælisleitendur sem koma til annars ríkis á undan Bandaríkjunum verði að sækja um hæli þar í landi.

Hælisleitendur bíða í Mexíkómeginn landamæranna.
Hælisleitendur bíða í Mexíkómeginn landamæranna. AFP

Reyndi sex sinnum á hálfsárs tímabili

Andres Ramirez, yfirmaður mexíkósku flóttamannastofnunarinnar COMAR segir þetta líklegt til að auka enn frekar á vandann í Mexíkó. „Þetta er áhyggjuefni,“ sagði hann. „Við búumst við að fjöldinn muni aukast enn frekar.“

Alexander Espinoza beið í hálft ár. Líf hans snérist eitt sinn um það eitt að komast til Bandaríkjanna. Espinoza er frá El Salvador og segist hafa reynt 10 sinnum að komast þangað, m.a. sex sinnum á hálfs árs tímabili. Þegar Trump bætti svo enn í varðandi hatursorðræðu í garð innflytjenda ákvað Espinoza hins vegar að gera Mexíkó að heimili sínu.

Hann fékk staðfestingu í síðustu viku á stöðu sinni sem flóttamaður eftir að hafa beðið frá því í mars. Biðinni er þó ekki lokið því hann á enn eftir að fá staðfestingu á dvalarleyfi, en á meðan hefur hann í sig og á með því að flétta armbönd sem hann selur.

Jafnvel áður en hæstiréttur staðfesti stefnu Bandaríkjastjórnar var búist við að COMCAR myndi fá 80.000 umsóknir á þessu ári, sem er meira en helmingi fleiri en í fyrra. Bara í síðasta mánuði þrefaldaðist fjöldinn frá því í fyrra og sóttu alls 8.178 manns þá um.

260 umsóknir á mann

Claudia Briseno, starfsmaður COMAR, situr við skrifborð með háa stafla af möppum til beggja handa. Hún, líkt og aðrir starfsmenn, hefur verið undir miklu álagi. Starfsmenn COMCAR eru 63 talsins og eru nú að vinna úr 16.350 umsóknum sem jafngildir um 260 umsóknum á mann.

Vinnudagarnir teygjast líka oft í 10, 12 og jafnvel 15 tíma segir Briseno og rödd hennar brestur. „Við leggjum á okkur þrefalt álag til að reyna að gefa öllum aðgang að hælisleitendakerfinu,“ segir hún.

Búið er að straumlínulaga kerfið verulega, m.a. hversu oft hælisleitendur verða að gefa sig fram við stofnunina. Segir Briseno breytingarnar sem verða á bandarískri innflytjendastefnu nú hins vegar kunna að kalla á enn frekari breytingar.

Hælisleitendur frá Hondúras í Mexíkó. Þessi hópur vonaðist enn eftir …
Hælisleitendur frá Hondúras í Mexíkó. Þessi hópur vonaðist enn eftir að komast yfir til Bandaríkjanna. AFP

Sparlegar fjárveitingar til COMAR eru ekki minnsti vandinn, en mexíkósk stjórnvöld úthlutuðu stofnuninni 20 milljónum pesóa í ár. Það jafngildir 124 milljónum króna og er lægsta fjárhæð sem stofnunin hefur fengið á síðasta sjö ára tímabili. Gert er ráð fyrir að auka fjárhæðina í 27 milljónir pesóa á næsta ári, en það er samt fjarri þeim 117 milljónum Pesóa sem Ramirez segir COMAR þurfa til að sinna hlutverki sínu.

Geta sótt um hæli í Bandaríkjunum ef umsókninni er hafnað

Þess vegna reiðir COMAR sig verulega á flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna sem hefur séð stofnuninni fyrir 112 starfsmönnum og aðstoðað við að opna þrjár nýjar skrifstofur.

Þar til COMAR færi aukin fjárframlög frá mexíkóskum stjórnvöldum verður stuðningur við þá hælisleitendur sem vilja setjast að í Mexíkó hins vegar áfram af skornum skammti segir Enrique Vidal, sem er samhæfingarstjóri mannréttindasamtakanna Fray Matias de Cordova.

„Á kerfislegum grunni skortir COMAR hæfnina til að bregðast við þeim heimi sem við búum í,“ sagði Vidal.

Fyrir suma hælisleitendur kann hælisumsókn í Mexíkó þó bara að vera stutt stopp, en samkvæmt lögunum sem hæstiréttur staðfesti geta þeir hælisleitendur sem fyrra ríki hefur synjað um hæli sótt um hæli í Bandaríkjunum.

Kúbverjinn Roger Fuentes, sem kom til Tapachula í ágúst, segir Bandaríkin enn vera fyrirheitna landið.  „Maður verður að sækja um hæli í Mexíkó, annars hefur maður ekki aðra kosti,“ sagði hann og kveðst ekki ætla að reyna að klúðra umsókninni þar þó að hann viti að synjunin gæti gert honum auðveldara um vik að fá hæli í Bandaríkjunum.

Landi hans Teresa Cardonell tekur í sama streng og segist óttast að vera send aftur til Kúbu. Hún er því staðráðin í að reyna að gera allt rétt í Mexíkó þó að hugurinn stefni enn til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert