Geymdi yfir 2.000 fóstur á heimilinu í tugi ára

Leyfar af þúsundum fóstra fundust á heimili læknisins Ulrich Klopfer, …
Leyfar af þúsundum fóstra fundust á heimili læknisins Ulrich Klopfer, sem lést fyrr í mánuðinum. Yfirvöld í Illinois rannsaka málið. Ljósmynd/Twitter

Yfir 2.200 fóstur fundust í plastpokum í yfir 70 kössum á heimili látins læknis í Illinois í Bandaríkjunum vikunni. Meirihluta fóstranna má rekja til þungunarrofa sem gerð voru árin 2000, 2001 og 2002 í Indiana. 

Læknirinn Ulrich Klopfer lést 3. september. Þegar fjölskylda hans var að tæma hús læknisins fundust yfir 70 kassar á heimilinu sem innihéldu mörg hundruð litla plastpoka. Í ljós kom að um er að ræða fóstur en Klopfer starfaði á heilbrigðisstofnun þar sem hann framkvæmdi meðal annars þungunarrof á konum sem þangað leituðu. 

Samkvæmt skýrslu dánardómstjóra í Will-sýslu í Illonois fundust alls 2.246 fóstur á heimili læknisins. Fjölskyldan bað embætti dánardómstjóra að fjarlægja pokana og hefur fóstrunum verið komið til yfirvalda og er það í þeirra höndum að ákveða hvort um glæpsamlegt athæfi hafi verið að ræða. James Glasgow, ríkissaksóknari í Illinois, segir að ekkert bendi til að Klopfer hafi framkvæmt aðgerðirnar á heimili sínu en hann lét af störfum árið 2015 eftir að lækningaleyfið var tekið af honum eftir að honum láðist að tilkynna um þungunarrof sem hann framkvæmdi á 13 ára gamalli stúlku. 

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, vakti athygli á að lækningaleyfið hefði verið tekið af Klopfer þegar hann gegndi embætti ríkisstjóri Indiana og lög voru sett um að komið yrði fram við látin fóstur af virðingu. 

Framkvæmdi yfir 30.000 þungunarrof á starfsævinni

Fátt í lögum segir til um refsingu sem hlýst af því að geyma fóstur en Glasgow segir að Klopfer gæti verið fundinn sekur um að hafa brotið gegn reglum um frágang fóstra eftir þungunarrof og að hafa ekki fyllt út þar til gerð gögn og skilað inn. 

Á blaðamannafundi vegna málsins vildu Mike Kelley, lögreglustjóri í Will-sýslu, og Patrick O'Neil dánardómstjóri ekki veita upplýsingar um hvort og hvernig fóstrin voru merkt í pokunum og hvort upplýsingar lægju fyrir hvaða konum fóstrin tilheyrðu. Glasgow sagði að augljóst væri að þungunarrofin hefðu verið framkvæmd fyrir mörgum árum, líklega í kringum aldamótin.

Í gögnum sem New York Times hefur undir höndum er Klopfer sagður hafa gert einna flestar þungunarrofsaðgerðir í sögu Indiana, um 30.000 talsins. Hann segir það undir konunum komið sem fóru í aðgerð hjá Klopfer á þessu tímabili að meta hvort upplýsingar tengdar málinu verði gerðar opinberar. 

„Það er erfitt fyrir okkur að reyna að skilja hvað honum gekk til með að geyma þau þarna,“ segir Kelley. 

Lögregla hefur framkvæmt húsleit á tveimur heilbrigðisstofnunum sem Klopfer starfaði á. Þar fundust einnig kassar en ekki hefur verið gefið upp hvað fannst í þeim.

mbl.is