Reyndist hljóðbylgjuvopnið vera moskítóeitur?

Meindýraaeiðar svæla hér út moskítóflugur í Singapúr vegna ótta við …
Meindýraaeiðar svæla hér út moskítóflugur í Singapúr vegna ótta við Zika-veiruna. Mynd úr safni. AFP

Kanadískir vísindamenn segjast nú hafa mögulega borið kennsl á hvað það var sem olli dularfullum veikindum hjá kanadísku sendiráðsstarfsfólki á Kúbu árið 2016. Bandarískar frásagnir af veikindunum hafa gefið til kynna að einhvers konar „hljóðbylgjuárás“ hafi valdið sambærilegum einkennum hjá starfsfólki bandaríska sendiráðsins og hafa fylgt í kjölfarið vangaveltur um leynilegt hljóðbylgjuvopn.

BBC greinir frá og segir niðurstöður kanadísku vísindamannanna benda til þess að taugaeitur sem var notað til að eitra fyrir moskítóflugum sé líklegri skýring.

Zika-veiran, sem moskítóflugan getur borið með sér, var í hámæli á þeim tíma sem málin komu upp.

Einkennin sem starfsmennirnir fundu fyrir og hafa síðar fengið nafnið „Havana heilkennið“ voru m.a. höfuðverkir, sjóntruflanir, svimi og eyrnasuð, og rötuð þau í fjölmiðla víða um heim eftir að bandarísk stjórnvöld tilkynntu að á annan tug starfsmanna sendiráðsins á Kúbu fengi nú aðhlynningu vegna einkennanna.

Kúbversk yfirvöld neituðu öllum ásökunum um árásir og olli málið aukinni spennu milli þarlendra stjórnvalda og bandarískra.

Í júlí var svo greint frá því að bandarísk rannsókn hefði sýnt fram á breytingar á heila sendiráðsstarfsfólksins. Kanadísku vísindamennirnir sem starfa við Brain Repair Centre heilarannsóknamiðstöðina í Halifax telja sig nú hafa fundið svörin.

Rannsóknin var gerð á 28 þátttakendum og höfðu prófanir verið gerðar á sjö þeirra áður en þeir fóru til Havana. Styðja þær niðurstöður bandarísku vísindamannanna um heilaskaða.

Þessi tegund heilaskaða bendir hins vegar að sögn vísindamannanna til að fólkið hafi ítrekað komist í snertingu við taugaeitur í litlu magni.  Gáfu þær til kynna kólínesterasa hamlandi efni, en kólínesterasi er ensím sem er mikilvægt mannslíkamanum og getur það leitt til dauða sé því haldið frá líkamanum. Taugaeitrið Sarín er dæmi um öflugt kólínesterasa hamlandi efni og það er raunar líka taugaeitrið VX sem var notað til að myrða Ki Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu.

Veikir, en ítrekaðir skammtar, benda hins vegar að mati vísindamannanna frekar til þess að um ítrekaða snertingu við skordýraeitur hafi verið að ræða.

Segir BBC yfirvöld á Kúbu hafa lýst yfir stríði gegn Zika veirunni árið 2016 og þá hefði skordýraeitri verið úðað allt um kring, m.a. inni á heimilum sendiráðsstarfsfólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert