Drukknaði þegar hann bar upp bónorðið

Hótelherbergið er út á vatni.
Hótelherbergið er út á vatni. Ljósmynd/themantaresort.com

Karlmaður drukknaði þegar hann bar upp bónorð við kærustu sína í Tansaníu á dögunum. Maðurinn, Steven Weber, og unnusta hans, Kenesha Antoine, dvöldu á lúxushóteli á Pemba-eyju í herbergi sem er að hluta neðansjávar. BBC greinir frá

Verðandi eiginmaðurinn synti niður að herbergisglugga þeirra, dró fram handskrifað bréf þar sem hann bað um hönd hennar og opnaði því næst skrín með trúlofunarhring. Unnustan tók upp myndband af bónorðinu. 

Maðurinn lést líklega á leið aftur upp á yfirborðið en lögreglan rannsakar tildrög slyssins. 

Hótelið er um 250 metra frá ströndinni og herbergið á um 10 metra dýpi. Maðurinn var með sundgleraugu og froskalappir þegar atvikið átti sér stað. 

Í bónorðsbréfinu segir hann meðal annars: „Ég get ekki haldið niðri í mér andanum nógu lengi til að að segja þér frá öllu því sem ég elska í fari þínu. Ég elska þig meira með hverjum deginum.“

Kærastan greindi frá dauðsfalli hans á Facebook og sagði meðal annars að „hann fengi aldrei að heyra svarið við spurningu sinni sem væri milljón sinnum já“.   

mbl.is