Var í haldi sjóræningja í rúm fjögur ár

Sómalskur sjóræningi. Mynd úr safni.
Sómalskur sjóræningi. Mynd úr safni.

Íranskur sjómaður hefur verið látinn laus úr haldi sómalskra sjóræningja eftir að hafa verið í haldi þeirra í rúm fjögur ár. Mohammad Sharif Panahandeh var mjög veikur og var látinn laus af mannúðarsjónarmiðum, að því er fram kemur í frétt BBC.

Þar segir enn fremur að undanfarinn áratug hafi mörg þúsund sjómenn verið teknir til fanga úti fyrir ströndum Sómalíu. Þeir eru yfirleitt ekki látnir lausir nema í skiptum fyrir lausnargjald.

Nú þegar Sharif er laus eru þrír skipverjar alls í haldi sómalskra sjóræningja. Allir eru þeir samlandar Sharifs og voru á sama skipi og hann þegar sjóræningjarnir tóku þá til fanga í mars 2015.

Að sögn hjálparsamtaka er Sharif mjög vannærður, glímir við magavandamál og innvortis blæðingar.

Fram kemur að þrátt fyrir að Sharif hafi verið látinn laus vilji sjóræningjarnir enn fá lausnargjald fyrir félaga hans þrjá sem eftir eru.

mbl.is