Fundu flutningsleið fíkniefna neðansjávar

Spænska strandgæslan lagði hald á tvö tonn af hassi sem hún fann á botni Miðjarðarhafsins nýverið. Alls hafa 32 einstaklingar verið handteknir grunaðir um tilraun til að smygla hassinu til Tarifa-héraðs á Spáni. 

Einn hinna handteknu er í sjóbjörgunarsveitinni og er hann grunaður um að vara smyglara við ferðum strandgæslunnar um svæðið. Smyglararnir notuðu meðal annars slöngubáta og kafara til að sækja fíkniefnin sem hafði verið komið fyrir í vatnsþéttum umbúðum á botni Miðjarðarhafsins. 

Lögreglan lagði auk þess hald á þrjá báta og fimm bíla í tengslum við rannsókn málsins. Í suðurhluta Spánar er það hass sem kemst í umferð yfirleitt flutt til landsins frá Marokkó. 

mbl.is

Bloggað um fréttina